Vorganga Sögufélagsins
Vorganga Sögufélagsins var einstaklega fróðleg, skemmtileg og vel heppnuð í alla staði, stjórn félagsins vill þakka þeim sem lögðu þar hönd á plóg fyrir ómetanlegt framlag.
Gunnar Svavarsson tók myndir af viðburðinum sem finna má á facebook síðu sögufélagsins https://www.facebook.com/SogufelagKopavogs/
Laugardaginn 12. maí s.l. stóð Sögufélag Kópavogs fyrir fræðslu og skemmtigöngu um vestasta hluta Kársnesins og var gangan einkum tengd skáldum og öðrum listamönnum sem bjuggu við Kársnesbrautina. Milli 50 og 60 manns söfnuðust saman við gamla Kársnesskólann í blíðskapar veðri sennilega besta veðri ársins. Frímann Ingi Helgason bauð fólkið velkomið og sagði stuttlega frá aðdraganda og skipulagi göngunnar og bauð Þóri Hallgrímssyni þeim ástsæla fyrrum skólastjóra Kársnesskólans að segja nokkur orð áður en lagt yrði af stað í sjálfa gönguna. Þórir sagði skemmtilega frá upphafsárum skólans og ýmsu áhugaverðu sem hann upplifði í sínu starfi þar. Það var mjög vel til fundið að fá Þóri til að fara aðeins yfir þessa sögu nú, því búið er að dæma skólann ónýtan og mun hann verða jafnaður við jörðu fyrir ágústlok í sumar.
Síðan var lagt af stað gengið niður á Kársnesbraut og staldrað við á nokkrum stöðum, sagt stuttlega frá listamönnum sem bjuggu í gönguleið og í nágrenni hennar. Nokkrir einstaklingar sem ólust upp á þessu svæði sögðu frá mannlífi og aðstæðum á svæðinu og voru frásagnir þeirra einstaklega áhugaverðar og skemmtilegar. Þeir sem tóku til máls voru Indriði Jónsson sonur Jóns úr Vör, Lárus Lárusson sonur Lárusar Salómonssonar, Eggert Gautur Gunnarsson sonur Gunnars Eggertssonar sem lengi sat í hreppsnefnd, Ingunn Erna Stefánsdóttir, Júlíana Signý Gunnarsdóttir og Gerður Guðmundsdóttir. Göngunni lauk við við gatnamót Hafnarbrautar og Borgarholtsbrautar og tók tæpa tvo klukkutíma.