Kópavogsbíó 1959-1975

Í Héraðsskjalasafni Kópavogs hefur nú verið opnuð sýningin Kópavogsbíó 1959-1975. Saga Kópavogsbíós er samofin sögu Félagsheimilis Kópavogs, en á fundi bæjarstjórnar 19. september 1958 var samþykkt að reka þar kvikmyndahús. Félagsheimilið var svo vígt 20. mars 1959. Á sýningu Héraðsskjalasafnsins er saga bíósins rakin í máli og myndum allt frá reikningnum fyrir sýningarvélunum og skýrslum um myndaleigu til annarra kvikmyndahúsa víða um land til ákvörðunarinnar um að hætta rekstri þess árið 1975. Kvikmyndir sem bíóið sýndi fá vitaskuld einnig sinn sess á sýningunni, bíóprógrömm og stiklur úr myndum eru sýndar ásamt mörgu fleiru. Sýningin stendur út október og eru allir velkomnir á afgreiðslutíma safnsins, kl. 10-16 virka daga að Digranesvegi 7 (gamla pósthúsinu).