BÚÐIR OG FÓLK


Þóra Elfa Björnsson flutti skemmtilega frásögn af fyrstu árum sínum í Kópavogi á haustfundi Sögufélagsins í fyrir ári síðan og birtum við hana hér í þremur hlutum með um það bil 15 daga millibili.

 

 

 

 

Vöruúrvalið í Guðnabúð var ansi gott og verslunin nýmóðins með sjálfsafgreiðslu- eða kjörbúðarsniði. Horfið var frá hveiti og sykri í skúffum sem þurfti að vigta í bréfpoka af réttum stærðum, bara kjöt og fars var vigtað og afgreitt úr sérstöku kjötborði þar sem Magga stóð pliktina með blíðlegu brosi. Stundum var erfitt að fá egg, t.d. fyrir jól og varð að viðhafa mikla útsjónarsemi og fyrirhyggju svo þau mál færu ekki í vaskinn, þótt ekki væru sortirnar 17 sem maður bakaði. Í dag svigna allar hillur undan óteljandi tegundum af marmelaði, morgunkorni o.fl. og maður rekst á fleiri hillumetra af sjampói og öðrum hreinlætisvörum svo valið getur verið mun erfiðara en í þá daga. Sími fyrir almenning var við kassann í Kársneskjöri og ef Guðni var ekki að panta vörur í hinu tólinu fékk maður að hringja þar.

Man ekki hvað það kostaði en langlínusímtöl eða við skip voru mjög dýr og þurfti oftast að panta þau. Ungt par bjó í nágrenninu og pilturinn réði sig á bát fyrir austan og þau höfðu komið sér saman um hvenær þau gætu talast við í Kárneskjöri. Einn daginn mætti stúlkan og hafði ekki lengi talað í símann þegar hún fór að hágráta og öllum brá við – hafði orðið sjóslys eða hvað? En stúlkan lagði á og hentist út úr búðinni og einhverjar góðhjartaðar konur þutu út á eftir henni og brátt barst fregnin. Pilturinn hafði þá sagt henni upp, sagðist verða áfram fyrir austan, hefði kynnst annarri stúlku þar í plássinu. Þannig vissu allir hvernig komið var og úrræðin bárust á færibandi. Kann ég ekki að segja meira frá þessari stúlku eða piltinum sem einu sinni var hennar en vona að þeim hafi farnast vel. Svo var það maðurinn sem fékk í búðarsímanum gleðifrétt um bærilega stóran happdrættisvinning og fékk lófaklapp frá viðstöddum, allir voru glaðir svo maðurinn bauð upp á súkkulaði á línuna en auðvitað upp á krít - en við vonum að Guðni hafi fengið uppgert þegar vinningurinn barst. Dag nokkurn kom ég í Guðnabúð og ætlaði að kaupa sápu og rak þá augun í rússneska sápu, hún var lyktarlaus og umbúðirnar ekki spennandi og af því Guðni stóð rétt hjá mér spurði ég hann hvers konar sápa þetta væri. Jú, sagði hann, þetta er rússnesk barnasápa sem var prangað inn á mig, eina manneskjan sem kaupir þetta er Sigga í Melgerðinu, hún segir sápuna sérlega góða til að leggja í bleyti samfestingana sem maðurinn hennar notar í járnsmiðjunni. Það þarf varla að nefna það, ég prófaði aldrei þessa sápu, hvorki á galla né börn.


Svo var Jóhann í Borgarbúðinni og Hulda kona hans og auðvitað kölluðu krakkarnir verslunina bara Jóabúð og ég verð að viðurkenna þegar ég var að taka þetta saman átti ég sem snöggvast í erfiðleikum með að muna hið rétta heiti. Hulda þótti hrjúf en Jóhann fámáll en þau voru bæði traustar eðalmanneskjur og gerðu mönnum ófáan greiðann. Það voru aðrir peningatímar en við þekkjum í dag, það sem skrifað var hjá kúnnunum í búðunum bar enga vexti og ef skuldarinn flutti burt án þess að gera upp, gat verið ansi snúið að ljúka málinu eða upphæðin töpuð. Lögfræðingar þess tíma höfðu ekki komið auga á leiðir til þess að gera sér mat úr slíkum einkaskuldum. Biðskýlið var af annarri gerð en Guðnabúð eða Jóabúð. Vöruúrvalið var afar takmarkað enda markað af lögum og reglugerðum. Ég man að það fór oft í taugarnar á mér að það mátti selja þar kók og sígarettur til miðnættis alla daga en ekki mjólk og við skulum ekki gleyma að afgreiðslutími verslana var annar en nú, lokað var eftir hádegi á laugardögum og allan sunnudaginn. Í biðskýlinu hengu unglingar oft og tíðum löngum stundum og eru orðin fullorðið fólk í dag og vilja örugglega ekki rifja þennan tíma upp. Annar samastaður unglinganna var bakaríshornið við Borgarholtsbraut og Urðarbraut og alveg víst að þangað söfnuðust þau alltaf á gamlárskvöldum og skemmtu sér hið besta. Eða ég vona það. En hvað var fyrir krakka og unglinga í tómstundum? Það var fremur fábreytt, lítið íþróttastarf og hentaði ekki öllum, það var mikil happasending þegar Þorvarður Áki tók upp á því að stofna handknattleiksfélag og taka strákana í æfingar. Svo voru frímerkjaklúbbar og eitt og annað fleira á vegum skólanna og skátarnir voru til staðar fyrir stráka og stelpur.