Fræðsluganga Sögufélagsins á slóðir gamla Digranesbæjarins
Kópavogsdagar 2012
Fræðsluganga Sögufélagsins á slóðir gamla Digranesbæjarins
Í tilefni af Kópavogsdögum 2012 stóð Sögufélag Kópavogs í samvinnu við Héraðsskjalasafnið og Náttúrufræðistofu fyrir fræðslugöngu á slóðir gamla Digranesbæjarins þriðjudaginn 8.maí. Mæting var á bílastæði Álfhólsskóla. Þetta var létt eins og hálfs tíma ganga undir leiðsögn Guðlaugs R. Guðmundssonar. Allir voru hjartanlega velkomnir og þeir sem þekkja vel til svæðisins miðluðu upplýsingum til annarra þátttakenda á meðan á göngunni stóð.
Fræðslugangan
Á nýafstöðnum Kópavogsdögum stóð Sögufélag Kópavogs í samvinnu við Héraðskjalasafnið og Náttúrufræðistofu fyrir fræðslugöngu á slóðir gamla Digranesbæjarins. Mæting var góð nær 60 manns mættu í ágætu veðri á bílastæði Álfhólsskóla þriðjudaginn 8. maí og lagt var af stað í gönguna stundvíslega klukkan 17.30. Guðlaugur R. Guðmundsson cand. mag. var leiðsögumaður en hann hefur undanfarið unnið að örnefnaskrá bæjarins og er þaulkunnugur á söguslóðum höfuðborgarsvæðisins og þá ekki síst í Kópavogi. Flestar myndir sem fylgja þessum texta tók Ruth Sólveig Kristjánsson og kann Sögufélagið henni bestu þakkir fyrir að leyfa birtingu þeirra.
Álfhóll
Álfhóllinn góði
Álfhóllinn sem velflestir Kópavogsbúar vita deili á er í næsta nágrenni við bílastæði skólans og því lá beint við að stansa þar um hríð og rifja upp fjölmargar sögur um hulduverurnar sem byggja staðinn. Álfarnir hafa með virku andófi varist ásókn mennskra sveitunga sinna um langt árabil. Mörg óútskýranleg óhöpp urðu í þessum átökum bæði við hólinn og álfabrekkurnar norður af honum. Smátt og smátt lærðist mönnum að bera virðingu fyrir álfunum og bústöðum þeirra og vonandi er þessari baráttu lokið. Segja má að álfarnir hafi fengið opinbera viðurkenningu á tilvist sinni þar sem a.m.k ein húsalóð hefur verið frátekin vegna huldubyggðarinnar. Auk þess var Álfhólsvegurinn sveigður til um svæðið. Svo virðist sem hulduverurnar kunni að meta þessa tillitsemi því eftir því sem kunnugir segja hefur aldrei orðið alvarlegt slys við hólinn þrátt fyrir mikla umferð barna og bíla en eðlilega leita börn í þetta tilvalda leiksvæði á leið til og frá skólanum og íþróttahúsinu sem er þarna skammt undan. Þarna virðist því vera öflug ósýnileg öryggisgæsla.
Himnaríki
Himnaríki á jörðu
Á eftir fræðslu um álfabyggðir bauð Sögufélagið upp á stuttan útúrdúr til Himnaríkis undir leiðsögn Elísabetar Sveinsdóttir sem flestir þekkja sem Stellu frá Snælandi. Þetta er þó ekki það himnaríki sem bíður góðra manna að lokinni þessa heims jarðvist. Gengið var stuttan spöl austur Álfhólsveginn að húsi frá frumbýlisárum bæjarins. Húsið gekk undir þessu nafni því það þótti firnastórt og einstaklega hátimbrað. Nágrannarnir sem flestir bjuggu í lágreistum hýbýlum gáfu því þetta nafn þegar það reis hærra og hærra. Það er svo tímanna tákn að þessi bygging fellur nú alveg inn í götumyndina og engum myndi koma það í hug að þetta hafi þótt háreist stórhýsi. Annað hús norðar, niður við Nýbýlaveginn var svo stundum kallað Helvíti til mótvægis. Það hús er löngu horfið en þótti fremur óhrjálegt eins og Guðmundur G. Hagalín lýsir í ævisögu sinni. Reyndar kallaði hann húsið Fílabeinshöllina, líklega í kerskni. Ekki þótti göngufólki ráðlegt að fara á þennan neðri stað.
Digranesbærinn
Bæjarhlað Digranesbæjar ( Mynd RSK)
Næst var gengið aftur til vesturs að rústum gamla Digranesbæjarins. Það er ofmælt að kalla minjarnar um bæinn rústir því sáralítið er eftir af bænum sjálfum en myndarlegt hellulagt bæjarhlað og grasi gróinn hleðsla um kartöflu- og grænmetisgarð er vel sýnileg og vitna um myndarbrag. Bæjarstæðið liggur móti suðri ofarlega í Digraneshálsinum austast og víðsýnt er af hlaðinu. Í dag blasir við þungamiðja höfuðborgarsvæðisins, verslunarhverfið kringum Smáralindina og svo Kópavogsbyggðin sem virðist ná endalaust austur á bóginn. Til að gefa göngufólki hugmynd um hvernig bærinn sjálfur og umhverfið þarna suður og austur af hefur litið út voru skoðaðar ljósmyndir og teikningar. Guðlaugur gerði grein fyrir helstu örnefnum og staðarháttum. Göngumenn sem til þekktu bættu við og rifjuðu upp sögur frá fyrri búendum og þá einkum frá þeim síðasta Jóni Guðmundssyni. Jón var enginn veifiskati og einstakt kjarkmenni eins og sögurnar færðu sönnur á. Sem dæmi um dugnað Jóns má nefna að hann lagði á sinn kostnað veg frá Hafnarfjarðavegi austur að Digranesbæ á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld. Jón varð úti í febrúar 1935 á heimleið frá Reykjavík, nálægt því þar sem Snælandsskóli reis síðar. Ekkja hans Guðbjörg Jónsdóttir hélt áfram búskap til ársins 1938. Þá seldi hún Ísaki á Bjargi á Seltjarnarnesi ábúðarréttinn. Segja má að með fráfalli Jóns og búsetulokum í Digranesi hafi myndast möguleiki á því að úthluta úr landi jarðarinnar sem var í eigu ríkisins, skikum undir nýbýlin norðan megin í hálsinum niður undir Fossvogsdal. Þau nýbýli urðu svo kjölfestan í Kópavogsbyggðinni fyrstu árin. Þarna á bæjarhlaðinu var upplýst að dóttursonur Jóns, Grétar Sigurðsson sem fæddur er 1929 og því mjög líklega elsti innfæddi Kópavogsbúinn hafi mikinn áhuga á því að færa Kópavogsbúum gamla hestasteininn frá Digranesi að gjöf. Grétar hefur af kostgæfni varðveitt steininn um árabil. Sögufélagið mun vinna áfram að málinu ef áhugi er hjá bæjarfélaginu að þiggja þennan merkilega nytjahlut og sjá til þess að honum verði valinn verðugur staður í samræmi við óskir gefandans.
Göngufólkið við bæjarrústirnar (Mynd RSK)
Víghólasvæðið
Útsýni til suðvesturs frá Víghól (Mynd RSK)
Að loknu mjög fróðlegu spjalli Guðlaugs og fleiri við rústirnar af Digranesbænum var haldið nokkurn spöl vestur á bóginn að Víghól. Reyndar eru sagnir um að hólarnir hafi verið tveir en sá syðri og minni hafi verið gerður að byssuhreiðri og síðar eyðilagður á stríðsárunum en allmikil hernaðarumsvif voru á þessu svæði. Stóri Víghóllinn er í nær 75 metra hæð yfir sjávarmáli og útsýni stórkostlegt til allra átta. Guðlaugur rakti örnefni á svæðinu og umhverfis það og benti á að allmargir víghólar væru á landinu og þá tilgátu að þessir hólar sem flestir standa við gamlar götur eða alfaraleiðir hafi upphaflega verið kallaðir veghólar sem síðar hafi svo afbakast í víghólar. Svo er einnig um Víghólinn okkar því kirkjuleiðin til Reykjavíkur lá þarna um. Þarna á Víghólnum flutti svo Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs fróðlegt innslag um jarðsögu svæðisins og stöðu þess sem náttúruvættis. Bergið í hólnum er svokallað Reykjavíkurgrágrýti (svo!) líklega runnið á hlýskeiði seinni hlutar ísaldar fyrir um 300.000-400.000 árum. Sögulegar minjar á svæðinu eru litlar en nokkrar steinsteyptar loftnetsundirstöður er þarna að finna og fjöldi stagkróka er í steinum ef vel er að gáð. Þetta eru leifarnar af einni öflugustu fjarskipamiðstöð bandaríska hersins sem reist var á Íslandi á hernámsárunum. Herskálabyggðin var nefnd Camp Catharine í höfuðið á eiginkonu fyrsta yfirmanns ratsjárstöðvarinnar sem staðsett var þarna. Þetta var lítill kampur um 40 hermenn einkum fjarskiptasérfræðingar í 13 bröggum. Nú sést hvorki tangur né tetur af þessari byggð. Löngu síðar var svo fyrirhugað að reisa Digraneskirkju á þessu svæði sjálfsagt í samræmi við það byggingarskipulag sem frumkvöðlar bæjarfélagsins mótuðu í byrjun að opinberar þjónustustofnanir s.s skólar, stjórnsýslubyggingar og kirkjur væru staðsettar á Digraneshálsinum miðjum og þannig fram Kársnesið. Góðu heilli risu svo íbúarnir þarna í kring gegn þessari hefð og kirkjunni var fundin önnur staðsetning suður af háhálsinum og stendur þar nú á fallegum stað. Jarðvegsvinna við grunn kirkjuskipsins var hafin þegar ákvörðuninni var breytt og sjá má fleygaðar klappir sem voru hluti af þessum framkvæmdum. Hinsvegar er til fyrirmyndar hvernig gengið var frá og falleg steinhleðsla setur sinn svip á svæðið. Þarna í kirkjugrunninum gamla lauk svo göngunni og var þá stutt að fara aftur að upphafsreit fyrir þá sem skilið höfðu farkosti sína eftir þar.
Eftirmáli
Gönguhópurinn (Mynd RSK)
Við þessa frásögn af fræðslugöngunni er svo dálítill eftirmáli. Þannig var að tveir gamalkunnir og vel metnir Kópavogsbúar þeir Pétur Sveinsson frá Snælandi og Guðmundur Þorkelsson frá Fífuhvammi ásamt nokkrum öðrum mættu á bílastæðið örfáum mínútum eftir að gangan lagði af stað. Það er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir að hafa ekið fram og til baka um þetta tiltölulega litla svæði þar sem 60 manns voru á hægfara rölti fundu þeir aldrei hópinn. Þessir menn rata svo sannarlega um bæinn og því er óskiljanlegt að þeir hafi ekki komið auga á fylkinguna. Glöggir menn hafa svo komið með einu rökréttu skýringuna á þessu dularfulla fyrirbæri. Þeir telja að þarna hafi álfar um vélað og kastað yfir göngufólkið huliðshjálmi á ögurstund. Ástæðan liggur í augum uppi því að þó reynt hafi verið að sýna hólnum og ábúendum hans fulla virðingu í heimsókninni fylgdi henni nokkur átroðningur. Öflugt gjallarhorn var notað til kynningar og ekki hefur bætt úr skák að fyrir mistök var hávært sírenuvæl sett á. Þó að ábyrgur lúðurberi hafi umsvifalaust verið settur af, hefur það ekki dugað. Sögufélagsmenn telja þó að fullar sættir hafi náðst því farið var á hólinn með hunang í skálum til að reyna að bæta skaðann. Eins og allir vita er hunang uppáhaldsfæða álfa og annarra hulduvera. Tveimur dögum seinna voru svo skálarnar sóttar, þá tómar og þó að sést hafi bregða fyrir útigangsketti sem sleikti ákaft útum, þá er í okkar huga enginn vafi á þvi að þarna hafa álfarnir verið að verki. Vonandi láta Kópavogsbúar þetta sér að kenningu verða og umgangist því álfabyggðir með fullri virðingu. Annars er hætta á að þeir yfirgefi bæjarfélagið og fari suður til Hafnarfjarðar eða jafnvel alla leið til Vestmannaeyja en í Eyjum er nú tekið sérstaklega vel á móti þessum verum og þeim boðið búseta í sérhönnuðum álfablokkum þar sem möguleiki er á dýrahaldi. Tilveran í Kópavogi yrði fátæklegri fyrir vikið.
Gamli Digranesbærinn
Næsta fræðsluganga sem Sögufélagið hyggst standa að er svo laugardaginn 28. júlí n.k. Þá verður gengið um gömlu Kópavogsjörðina og þingstaðinn þar, í tengslum við 350 ára afmæli Kópavogsfundarins. Dagskrá og tilhögun verður auglýst nánar síðar.