Fræðslugangan um miðbæjarsvæðið 8. maí sl.
[caption id="attachment_648" align="alignnone" width="394" caption="Myndin sem notuð var í getrauninni."][/caption] Gengið var frá Kópavogsskóla að Skólatröð og þaðan Háveg austur að Meltröð. Síðan aftur vestur að Hamraborg og til baka austur Digranesveg að byrjunarstað. Gangan tók um einn og hálfan klukkutíma og leiðsögumenn voru þeir Ólafur Guðmundsson f.v skólastjóri Kópavogsskóla sem uppalinn er í næsta nágrenni skólans og Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur sem þekkir allra manna best til örnefna bæjarins og staðhátta hér áður fyrr. Þátttaka var með ágætum um 40 til 50 manns. Veður var gott, bjart og fallegt vorveður með svala í lofti þegar þegar líða tók á kvöldið. Leiðsögumenn og aðrir staðkunnugir sögðu frá fjölmörgum sem búa eða búið hafa á göngusvæðinu. Gamlar myndir af svæðinu eins og það leit út fyrir áratugum síðan gengu milli manna og eldri Kópavogsbúar rifjuðu upp myndrænt þetta landsvæði sem hefur tekið ótrúlegum breytingum á tiltölulega stuttum tíma. Göngunni lauk með myndagetraun þar sem myndefnið er skrúðganga á sumardaginn fyrsta 1959. Hér fyrir neðan fylgir frásögn af eftirmálum getraunarinnar sem og hugleiðing Sigurðar Grétars Guðmundssonar um það sem sjá má á myndinni.
Sérstök tilkynning til gönguhópsins. Ágætu göngufélagar frá sögugöngunni 8. maí s.l Kærar þakkir fyrir ánægjulega kvöldstund þann 8.maí s.l. Eins og göngufólk man var efnt til getraunar þar sem dreift var ljósmynd af ákveðnum stað í Kópavogi og áttu þátttakendur að geta sér til um hvar ljósmyndarinn hefði staðið við tökuna. Dregið var úr lausnunum og fannst dómnefndinni fyrstu svörin sem dregin voru út nokkuð ónákvæm og varð úr að verðlaunin voru veitt fyrir svarið sem henni fannst nákvæmast. Eftir ábendingu frá glöggum og dómnefndinni fróðari manni var myndin tölvugreind með nútíma GPS tækni og þá kom í ljós að fyrsta svarið var hárrétt. Myndin var tekin af svölum Félagsheimilisins sem þá var í byggingu. Nú er það svo að Sögufélagið hefur sömu nálgun á slíka hluti og Ari Fróði forðum. Það er að vilja hafa það sem sannara reynist og því er eðlilegt að koma þessari leiðréttingu á framfæri. Reyndar kom hárrétt svar við getrauninni fram fljótlega við dráttinn sem dæmt var ranglega ónákvæmt. Í framhaldi af því var hafin vísindaleg greining á miðunum sem dregnir voru út og sá sem skilaði rétta svarinu er fundinn og á Gylfi Sigurpálsson von á að fá sambærilegan vinning sendan heim með afsökunarbeiðni dómnefndar (sem hefur nú verið sett af). Tekið skal fram að þessi breyting skerðir á engan hátt þann sem hlaut verðlaunin enda var svar hans hnitmiðað og rökrétt þó að skakkað hafi nokkrum metrum. Vonandi sjáumst við svo öll í næstu göngu og gott væri fyrir stjórnina að fá ábendingar um gönguleiðir og sögumenn sem þekkja þar vel til. Með sumarkveðju, Stjórn Sögufélags Kópavogs.
Sagan að baki myndarinnar
eftir Sigurð Grétar Guðmundsson Þó ég hafi ekki tekið þátt í getrauninni í „göngunni miklu 8. maí sl.“ þá þykist ég bæði þekkja sviðið og hvert var tilefni myndatökunnar. Lítum á myndina. Húsið lengst til hægri stendur enn eins og við sáum í göngunni. Þegar ég flutti í Kópavog 1947 bjuggu þar Ólafur og kona hans ásamt börnum. Elst var Hrefna sem ung eignaðist dóttur. Uppkomin trúlofaðist hún manni sem var ruddi og ofbeldismaður Að lokum skildi hún við hann en hann ofsótti hana áfam. Í einni slíkri heimsókn ruddans tók hún til varna og stakk þann ofbeldishneigða, þar með voru dagar hans taldir. Fyrir þetta fékk hún fangelsisdóm. Þá tók Hrefna móðir hennar til sinna ráða sem einstakt er í sögunni. Hún keypti jörðina Bitru í Flóa, byggði þar veglegt hús og gerði samning við yfirmann dómsmála að hún tæki að sér rekstur kvennafangelsis í Bitru, hafði þar með tekist ætlunarverk sitt; að hafa dóttur sína hjá sér meðan hún afplánaði dóminn. Bitra er nú í eigu ríkisisns og þar er rekið „heldrimanna fangelsi“. Sonur Ólafs og konu hans er Rúnar sem enn býr í Kópavogi, var vinnuvélastjóri meðan hann var í starfi. Kvæntur Sigurlínu Konáðsdóttur sem lengi starfaði í Félagsmálastofnun Kópavogs. Þá nefni ég Kötlu sem hefur verið á mínum aldri, ég held að hún sé ekki lengur á lífi. Þetta hús leigði Jón Sumarliðason móðurbróðir minn og Hrefna kona hans árið1948 og bjuggu þar í nokkur ár. Börn þeirra voru Reynir, Sif og Hallgrímur Smári. Nokkru austar sést í húsið sem Þórir faðir Metúsalems og Snorra byggði. Snorri stofnaði síðar kvikmyndafyrirtækið Saga film og ég lék í nokkuð mörgum auglýsingum hjá honum. Hann seldi seinna Saga film en stofnaði þá Pegasus og við Helga lékum í einni auglýsingu hjá Pegasus sl. haust, tekin við Skógafoss, auglýstum Prins Póló. Húsið sem sést í heild stendur á horni Digranesvegar og Neðstutraðar, þar bjuggu Ari og Ása í austurenda, synir þeirra Kalli og Jonni, Í vesturendanum átti heima Stefán Þorleifsson og fjölskylda. Stefán var leigubílstjóri og harmónikkuleikari og var með sína eigin hljómsveit og spilaði víða á böllum. Í húsinu þar fyrir austan bjó Ingimundur leigubílstjóri og kona hans Hrefna. Hún vann lengi í kaffíteríunni í Félagsheimili Kópavogs, einnig Guðný dóttir hennar sem gæti gefið frekari upplýsingar um íbúa í þessum húsum, en hún vinnur nú í fatadeild Hagkaupa í Smáralind. Húsið sem sést í gaflinn á til vinstri er Neðstatröð 4, en það byggði Jón Sumarliðason og bjó þar alllengi. Þegar Kópavogur varð kaupstaður 1955 var stofnað þar embætti Bæjarfógeta. Fyrst var Jón sýslumaður í Borgarnesi skipaður Bæjarfógeti, en þá skárust Framsóknarmenn í leikinn og þvinguðu Jón til að afsala sér embættinu, hann var þeirra maður í Borgarnesi og þeir óttuðust að þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, mundi skipa öflugan sjálfstæðismann í embættið, sem yrði þeirra foringi í Borgarfirði. Það gerðist síðar þegar Jón lét af embætti, Ásgeir Pétursson var skipaður sýslumaður í Borgarnesi En Jón Sumarliðason sá sér leik á borði þegar Sigurgeir Jónsson var skipaður Bæjarfógeti og leigði neðri hæð hússins við Neðstutröð sem fyrsta aðsetur Bæjarfógeta. Ég sagði síðar við Sigurgeir í nokkrum galsa að hann hefði engan þekkt í Kópavogi þá nema nokkra unga menn (delikventa) sem voru komnir í harða deilu við lögregluna í Hafnarfirði, en hann var af dómsmálaráðherra skipaður setudómari í því máli. Sigurgeir var fljótur til svars og sagði „þessir ungu menn höfðu ekki brotið af sér, það var brotið á þeim“ (Sigurgeir notaði að vísu eintölu í sínu svari). En hvenær og hvar er myndin tekin? Ártalið 1959 er á myndinni. Hún er tekin af skyggni Félagsheimilis Kópavogs á Sumardaginn fyrsta á nefndu ári. Hátíðahöldin fóru fram við vesturhlið FK og skyggnið notað sem leiksvið. Þá var Leikfélag Kópavogs tveggja ára og lögðum við til atriði á hátíðahöldunum. Ég tók ekki þátt í því en var þá formaður félagsins og kom því þar nærri. Um haustið fumsýndi LK hið fræga leikrit Agötu Christie, Músagildruna. Hripað í flýti 11. maí 2013 Sigurður Grétar Guðmundsson