Hamraborgarheitið og miðbær Kópavogs
Eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson
Stutt er síðan þéttbýli myndaðist í Kópavogi. Á fyrstu árum þéttbýlismyndunar í Gullbringu- og Kjósarsýslu var Kópavogur hluti Seltjarnarneshrepps hins forna. Hreppsnefndin var lengi mjög treg til að heimila varanlega búsetu í Kópavogi. Fyrsta skipulagða svæðið til bygginga var því ekki samþykkt fyrr en árið 1948 þegar Kópavogshreppur varð til sem sérstakt sveitarfélag. Erfitt var að fá úthlutunarleyfi undir lóðir allt til 1957 en þá keypti hinn nýi Kópavogskaupstaður jarðirnar Kópavog og Digranes af ríkinu. Með þessari breytingu kom það í hlut bæjarstjórnar og byggingarnefndar Kópavogs að úthluta lóðum og byggingarleyfum. Fjöldi húsa reis því fljótlega á svæðinu.
Kópavogsskóli, sem stofnaður var 1949, var aðalsamkomuhús bæjarins áður en Félagsheimili Kópavogs reis. Þar voru haldnir fundir Framfarafélags Kópavogs, hreppsnefndarfundir Kópavogshrepps og áður en Kópavogskirkja reis guðsþjónustur Kópavogssafnaðar. Einnig hafði Leikfélag Kópavogs þar aðstöðu. Fyrst voru bæjarskrifstofur Kópavogskaupstaðar við Skjólbraut, eitt ár á Skjólbraut 4 og síðan að Skjólbraut 10. Árið 1963 fluttu skrifstofurnar í nýbyggt Félagsheimili Kópavogs. Í Félagsheimilinu var til húsa m. a. bókasafn Kópavogs um tíma, bæjarskrifstofur og Kópavogsbíó. Árið 1986 er komin miðbæjarmynd á svæðið eins og sjá má á staðgreini frá þeim tíma. Gatan er skráð á kortinu Hamraborg á kortinu frá Borgarholti og að gatnamótum Álfhólsvegar og Vallartraðar. Þessi gata frá Borgarholti og að Hafnarfjarðarvegi var áður nefnd Hábraut. Má sjá hana skráða með því nafni á korti Ágústs Böðvarssonar frá 1966.
Hugmyndasamkeppni um skipulag miðbæjarins
Árið 1970 var efnt til hugmyndasamkeppni um skipulag miðbæjarsvæðisins í Kópavogi frá Borgarholtinu í vestri að Vallartröð í austri. Nýtt deiliskipulag var samþykkt á árinu 1971 en árið 1978 var það endurskoðað og því breytt. Að lokinni hugmyndasamkeppni árið 1970 hófst skipulag Hamraborgar. Aðalkjarninn, íbúðasamsteypan Hamraborg 14 til 38, varð nokkurs konar kjarni í þessari Hamraborgarbyggð. Íbúðabyggðin er með á þriðja hundrað íbúða og fjölda fyrirtækja og verslana. Aðalbyggingarnar mynda ferhyrning og innan hans er svokallaður Geislagarður (Geislahlað) sem gerður er á þaki bílageymslunnar. Hamraborgarráð hefur umsjón með eignunum ásamt Kópavogsbæ. Sá arkitekt sem hefur einna mest sett svipmót sitt á þennan miðkjarna Kópavogs er Benjamín Magnússon. Hinn nýi miðbær Kópavogs í landi Kópavogsjarðar mótaðist mest á síðustu áratugum 20. aldar á Kópavogshálsi. Með því að mynda gjána og brúa hana og tengja Borgarholtið og verslunarsvæðið í Hamraborg myndaðist kjarni sem er ekki þjakaður af umferðarþunganum sem fer um gjána. Aðaltorgið fékk nafnið Hálsatorg. Samkeppni var haldin um nafngift torgsins og kynnti Ómar Stefánsson forseti bæjarstjórnar hið nýja nafn á torginu er það var vígt 20. maí 2006. Ómar sagði nafnið hafa verið samþykkt með þeim rökum að torgið væri staðsett á Kópavogshálsi. Flestir bæjarfulltrúar voru viðstaddir ásamt Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra og Sigurbirni Einarssyni biskupi. Við torgið er Gjábakki, miðstöð eldri borgara í vesturhluta Kópavogs. Í austurhlutanum eru miðstöðvar í Gullsmára og Boðanum. Með öllum þessum framkvæmdum á miðsvæði Kópavogsjarðar varð til sérstæður og einstæður miðbæjarkjarni á Íslandi, miðbær á gjárbarmi.
Kópavogskirkja er höfuðtákn Kópavogs
Allt frá dögum grískrar hámenningar hefur verið áberandi í Evrópu tilhneiging stjórnenda blómstrandi bæja að reisa sína háborg, sína Akrapólis. Á Íslandi er þekktust tilraun Guðjóns Samúelssonar á þriðja áratugi síðustu aldar þegar hann teiknaði háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholti sem áður hét Arnarhólsholt. Þar trónir höfuðkirkjan efst en menningar- og stjórnsýslustöðvar voru fyrirhugaðar allt um kring. Þessi hugmynd Guðjóns varð ekki að veruleika en samt er Hallgrímskirkja, sem hann teiknaði, höfuðtákn Reykjavíkur í dag. Miðbær Reykjavíkur hefur aftur á móti átt erfitt uppdráttar. Kópavogskirkja á Borgarholti er nú höfuðtákn Kópavogs en miðbæjarkjarninn í göngufæri á hinum einstæða gjárbarmi. Nýjar hugmyndir um miðbæ Kópavogsbæjar komu fram eftir að Kópavogsbær keypti Fífuhvammsjörðina um 1980. Marga Kópavogsbúa dreymdi um að þar risi miðkjarni alls Stór-Reykjavíkursvæðisins. Sá draumur er enn óráðinn.
Kópavogur í alfararleið
Að lokum vil ég nefna söguleg atriði sem tengjast Kópavogshálsi. Nú er í tísku að grafa upp minjar og minningar einkum fyrir þá sem vilja fá merkimiða til að tengja okkur við fortíðina. Ég vil hér nefna tvennt. Gamla leiðin eða alfaraleiðin, sem er eins gömul og Íslandsbyggð, lá yfir Kópavogshálsinn. Mikilvægur viðkomustaður á Kópavogsvæðinu var við alfaraleiðina einkum meðan þriggja hreppa þing var haldið við Þinghól frá byrjun sextándu aldar og fram til miðrar þeirrar átjándu. Hún var lengi kölluð Álftanesgata eða Fógetagata. Örlitlar leifar af henni finnast enn við botn Kópavogs þar sem farið er upp á Arnarneshálsinn. Engar leifar af henni eru til á Kópavogshálsi.
Ummerki um Bandaríkjaher
Annað langar mig til að nefna en það eru ummerkin eftir her Bandamanna sem var hér á stríðsárunum. Þeir fyrstu komu 10. maí 1940 og þeir síðustu fóru í aprílmánuði 1944. Á því svæði sem nú er nefnt Hamraborg var á stríðsárunum herskálakampur sem nefndur var á kortum bandaríska hersins Skeleton Hill Camp. Við hann var mikið fallbyssustæði til að verja Fossvogssvæðið og Reykjavíkurflugvöll. Mikið hefur verið rætt um heitið Skeleton Hill og margar ævintýralegar skýringar komið fram. Heimild er til frá stríðsárunum að kampurinn hafi í fyrstu borið nafnið Skelton Hill Camp áður en Bandaríkjamenn komu til skjalanna. Gunnar Marel Hinriksson skjalavörður hefur komið með þá tilgátu að Bandaríkjamenn hafi breytt nafninu þegar þeir tóku við vörnunum á norðanverðum Kópavogshálsi sumarið 1942. (GRG tók saman 25. ágúst 2012) Staðgreinir frá nóvembermánuði 1986. Mælikvarði 1:5000