Hestasteinninn frá Digranesbænum er kominn heim
Mánudagurinn fjórði júní s.l var merkisdagur í Álfhólsskóla. Skólaári nemenda lauk þennan dag og síðdegis stóð Sögufélag Kópavogs í samráði við forráðamenn skólans fyrir stuttri athöfn þar sem Grétar Sigurðsson dóttursonur síðustu ábúenda í Digranesi afhenti skólanum og Kópavogsbúum gamla hestasteininn frá bænum að gjöf.Forsaga málsins er sú að þegar Sögufélagið var að skipuleggja fræðslugöngu á Digranesslóðir á Kópavogsdögum nú í vor þótti sjálfsagt að hafa samband við Grétar.
Hann er fæddur í Digranesbænum árið 1929 og því líklega elstur innfæddra Kópavogsbúa. Grétar bjargaði steininum frá eyðileggingu þegar íþróttahús Digranes var byggt og hefur varðveitt hann í nær fjörutíu ár. Það er eindregin ósk Grétars og fjölskyldu hans að steinninn verði varðveittur til frambúðar í anddyri skólans og verði hvatning nemendum og starfsliði að kynna sér og viðhalda sögu fólksins sem bjó í Digranesi. Þeir forráðamenn bæjarfélagsins og skólans sem málið varðar tóku þessu erindi mjög vel og búið var snyrtilega um steininn sem stendur nú á „grasi vaxinni“ torfu í anddyri skólans. Það var mál viðstaddra að óvenju góð spretta væri í Kópavogi nú í byrjun sumars. Jón Guðmundsson afi Grétars hóf búskap á jörðinni árið 1896 og bjó með fjölskyldu sinni fram til 1935 í fallegum fimm bursta bæ hlöðnum úr torfi og grjóti. Jón var mikill hestamaður og steinninn hefur staðið í bæjarhlaðinu allavega búskaparár Jóns og hugsanlega mun lengur. Við Kópavogsbúar eigum ekki marga sögulega gripi og því rík ástæða til að varðveita og fara vel með þær minjar sem eru í bæjarlandinu.