Síðsumarsganga umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs um Leirdalssvæðið
[/caption] Laugardaginn 22. september efndi umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs til síðsumarsgöngu um Leirdalssvæðið. Margrét Björnsdóttir kynnti gönguna í upphafi fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs. Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri stjórnaði göngunni. Gengið var upp á Hádegishól og sagði undirritaður lítillega frá hólnum og umhverfi. Um 60 metrum suðvestan við Stúpuna á hólnum eru rústir sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur hefur rannsakað og ritað um. Fornleifarannsóknir hennar voru gerðar vegna fyrirhugaðs umróts við gerð Arnarnesvegar.
Frá hólnum má sjá hvar gamla bæjarstæði Fífuhvamms var. Bergþóra Rannveig, dóttir Ísaks og Þórunnar sem keyptu Fífuhvammsjörðina 1916, sagði mér frá því sem hún vissi um Hádegishól sumarið 1967. Í örnefnalýsingum er einnig talað um Hádegishóla. Guðmundur Þorkelsson, sonur Bergþóru, var með í göngunni og fræddi okkur um Fífuhvammsjörðina. íðan var gengið sunnan Leirdals, sem nú er ekki lengur í upprunalegri mynd, en gjörbreyttur með miklum uppfyllingum. Nú er fyrirhugað að setja útsýnisskífu á Smalaholti á mörkum Garðabæjar og Kópavogs. Gamla landmerkið, þar sem skífan á að vera, sést frá Leirdal. Við Sigurður Björnsson (fyrrverandi bæjarverkfræðingur) höfum verið að finna hentug örnefni á skífuna. Í Leirdalnum var á stríðsárunum sprengjugeymsla hersins og lá svokallaður Sprengjuvegur sunnan Hádegishóla að sprengjugeymslusvæðinu, Hilton Ammo Dump, sem einnig var kallað Loho Bomb Dump. Þar var geymslusvæði fyrir skotfæri og sprengjur bandarísku loftvarnarbyssusveitarinnar í Camp Hilton, sem var þar sem gróðrarstöðin Storð er nú. Herbúðirnar þar voru reistar haustið 1941 sem aðalstöðvar og þjónustumiðstöð loft- og strandvarnabyssufylkis langönguliðs Bandaríkjaflota, 5th Defense Battalion. Upplýsingarnar sem ég hef undir höndum um hernaðarbröltið í Kópavogi á stríðsárunum eru aðallega komnar frá Friðþóri Eydal en einnig frá vini mínum og skólabróður Ragnari Stefánssyni sáluga sem var yfirmaður njósnadeildar Bandaríkjahers hér á landi á stríðsárunum.Við gengum að rústunum í Rjúpnadalshlíð. Kristján Ísaksson í Smárahvammi, móðurbróðir Guðmundar Þorkelssonar sem var með okkur í göngunni, taldi þegar ég átti viðtal við hann sumarið 1967, að þær væru leifar gamla Fífuhvammssels. Friðrik Baldursson fræddi okkur um rústirnar og skipulag svæðisins. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur hefur rannsakað rústirnar og má lesa umsögn hans um þær í Fornleifaskrá Kópavogs sem gefin var út árið 2000. Mér fyndist það gott verkefni fyrir börnin í Salaskóla að gera sjálfstæðar athuganir á næsta umhverfi skólans og Leirdalssvæðisins. Vel mætti hjálpa þeim við að finna heimildir. Hið sama gildir um alla skólana í Kópavogi. Með þessu móti mætti lífga við gamla grein, átthagafræðina, sem var mjög vinsæl áður fyrr. Guðlaugur R. Guðmundsson