Ferð Sögufélags Kópavogs um Lækjarbotnasvæðið
Ferð Sögufélags Kópavogs um Lækjarbotnasvæðið laugardaginn 20. júlí 2013 klukkan 13:00.
Ekið var frá Kópavogsskóla í fjallabíl frá Teiti. Um 50 manns tóku þátt í ferðinni. Konur voru í meirihluta og elsti farþeginn var Auður Jónsdóttir, leikkona og leikstjóri sem er að verða 95 ára. Fararstjórar og skipuleggjendur ferðarinnar voru þeir Þórður St. Guðmundson, formaður Sögufélags Kópavogs og Gunnar Marel Hinriksson skjalavörður.Farþegar fengu ljósrit af korti af landi Gunnarshólma, Geirlands og Lækjarbotna sem GRG gerði fyrir Sögu Kópavogs árið 1989 og er því bætt aftan við textann.
Nokkrir lögðu orð í belg í ferðinni og má nefna Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóra Kópavogs og Guðlaug R. Guðmundsson sagnfræðing sem er að semja bók, Örnefni og kennimerki í landi Kópavogsbæjar.Pétur Sveinsson frá Snælandi fræddi okkur um Lækjarbotnasvæðið og Fossvallarétt.Frændi hans Sigurður Skúlason frá Snælandi, nú skógarvörður Vöglum, fræddi okkur einnig um þessi svæði. Þeir höfðu báðir smalað svæðið áður fyrr.Guðmundur Þorkelsson frá Fífuhvammi var okkur innan handar um fróðleik um Fífuhvammsland er komið var upp á Rjúpnahlíð. Hann benti okkur á bæjarstæði Fífuhvammsbæjar sem rifann var 1983 og brunnstæðið. (Rjúpnahæð). Við vorum svo heppin að fá bóndann í Geirlandi, Braga Sigurjónsson, með okkur og fræddi hann okkur um tóftir á svæðinu þar sem nú er nefnt Gömlubotnar. Hann benti okkur m. a. á tóftir bæjar Hallberu Jónsdóttur en hún bjó í Lækjarbotnum um 1870. Hann vissi einnig hvar gamli Lækjarbotnabærinn var en þar var stofnað til nýbýlis árið 1868.Hann benti okkur einnig á tóftir Lögbergsbæjar sem reistur var á árunum 1904–1910 en Guðmundur Helgi Sigurðsson, bóndi í Lækjarbotnum flutti bæinn sinn þangað til að geta betur sinnt ferðalöngum. Bragi benti okkur á afmarkað svæði vestan við staðinn þar sem Lögberg var sem hann gaf bústýru sinni Guðfinnu Bernhöft. Hús Guðfinnu fékk nafnið Núpstún. Bragi lýsti fyrir okkur hvernig hlutunum var háttað á tíma Breta og Bandaríkjamanna á stríðsárunum.Við Lögberg var aðalbakarí hernámsliðsins Lögberg Bakery. Í upphafi ferðar lá leiðin að Leirdalssvæðinu og síðan upp á Rjúpnahlíð eða Rjúpnadalahlíð. Svæðið heitir svo frá fornu fari en seinna var farið að nefna Rjúpnahlíðina Rjúpnahæð. Guðmundur Þorkelsson frá Fífuhvammi sagði að Rjúpnahæðarnafnið hefði verið notað yfir þann hluta Rjúpnahlíðar sem vestastur var. Farið var úr bílnum og menn skyggndust um á Rjúpnahlíð þar sem fjarskiptastöðin var. Guðmundur Þorkelsson lýsti því sem blasti við frá hlíðinni og sagði sögur er tengdust svæðinu. Á Rjúpnahlíð (Rjúpnahæð), milli Smalaholts og Hörðuvalla var reist fjarskiptasendistöð sumarið 1943 sem átti að veita betri þjónustu en fjarskiptastöðin í Leynimýri sem var þar sem Veðurstofan er núna. Í Rjúpnahlíð risu 24 grindamöstur úr tré, 90 fet á hæð, og tvö 150 feta stálmöstur. Í stað stálmastranna komu tvö 200 feta há stálgrindamöstur í janúarmánuði árið 1944.Senditækin voru í bragga á hæðinni og þar var rafstöð með fjórum 55 K. V. A rafölum. Önnur aðstaða var ekki á hæðinni og bjuggu liðsmenn flughersins sem önnuðust reksturinn annarsstaðar.Sendistöðin á Rjúpnahæð þjónaði fyrst og fremst millilandaflugi í tengslum við Reykjavíkurflugvöll og fengu íslensk stjórnvöld stöðina og flugvöllinn til eignar árið 1946. Landsími Íslands tók við rekstrinum árið 1947 og rak hana í tengslum við samning um þjónustu við alþjóðlega flugumferð á Norður-Atlantshafi og hafði móttökustöð í Gufunesi. Stöðin var lögð niður árið 2006. Í Leirdal í landi Fífuhvamms, í lægðinni milli Hnoðraholts, Selhryggs og Smalaholts var Hilton Ammo Dump (Loho Bomb Dump). Nafnið mætti kalla á íslensku Hilton-skotfærageymsluna. Syðsti hluti svæðisins þar sem Hilton Ammo Dump var er nú innan marka Garðabæjar. Þar var geymslusvæði fyrir skotfæri og sprengjur bandarísku loftvarnarbyssusveitarinnar í Camp Hilton sem var þar sem nú er gróðrarstöðin Storð.Í Hilton Ammo Dump voru fjórir braggar. Hætt var að nota svæðið árið 1944 og leigusamningi við eigendur Fífuhvamms sagt upp.Leirdalssvæðið, þar sem sprengjugeymslan var, nefndu bandaríkjamenn Scattered Boulders (Hnullungadreif). Vegur lá frá Hilton Road sem var við Kópavogslæk í suður, vestan við Fífuhvamm og síðan að sprengjusvæðinu. Vegurinn var nefndur Sprengjuvegur eins og fyrr segir og er merktur á kortum hersins frá 1943 en ekki nafngreindur. Á stríðsárunum flæddi inn á sprengjugeymslusvæðið og var þá sprengjugeymslan færð ofar þar sem þurrara var. Nú er búið að gjörbreyta svæðinu með uppfyllingum og eru þær nokkrir metrar þar sem mest var fyllt. Þegar hér var komið sögu uppgötvaðist að hátalarinn hafði gleymst. Hann var sóttur í Héraðsskjalasafnið þar sem hann beið. Nú var ferðinni heitið án frekari tafa að Lækjarbotnum. Ekið var norðan við Elliðavatn, vestan Vatnsendaskyggnis, um Margróf í gamla landi Grafarholts og síðan þjóðveginn austan Rauðavatns, milli Almannadals og Rauðhóla inn í Hólmsland, sunnan Hólmsheiðar, sunnan við Geitháls og yfir Rauðubrú á Hólmsá og inn í Kópavogsland. Ekið var að skátaskálanum í Gömlubotnum eins og svæðið er nú kallað. Skammt ofan við skálann voru Lækjarbotnar, nýbýlið frá 1868.Mikil umferð var um svæðið í lok 19. aldar svo að bóndinn Guðmundur Helgi Sigurðsson ákvað að færa býlið vestar og nær alfaraleiðinni og nefndi hið nýja býli Lögberg. Hér var reistur skátaskáli 1929, Væringjaskálinn, sem rifinn var niður og endurbyggður við Árbæ árið 1962. Á Túnhóli austan við Suðurlandsveginn á svæðinu er minnismerki um Guðmund Helga Sigurðsson bónda í Lækjarbotnum og síðar á Lögbergi. Við fengum góða leiðsögn um svæðið og var Bragi frá Geirlandi ómetanlegur í þessum efnum. Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kóapvogs sagði frá bústöðum og skógrækt á svæðunum. Pétur Sveinsson frá Snælandi og Sigurður Skúlason skógarvörður bættu við upplýsingum þar sem við átti.Við ókum að Fossvallarétt og hluta gamla vegarins sem liggur rétt sunnan við núverandi Suðurlandsveg. Þeir Pétur og Sigurður nefndu að Hafravatnsrétt hefði einnig verið notuð sem lögrétt Seltjarnarneshrepps hins forna.Við gamla veginn skammt ofan við réttina er steinninn sem merktur er ártalinu 1887. Þangað var vagnvegurinn frá Reykjavík kominn það ár. Reyndar var vagnvegur um Svínahraun gerður nokkrum árum áður. Við ókum gamla veginn að herbúðunum Sandskeið Dump á Lakheiði. Þar hafði herinn 6 bragga og þrjú önnur hús. Í Lakadal, austan við kampinn voru geymdar miklar bensín- og olíubirgðir hersins. Á svæðinu sunnan við Lyklafell og Litla Lyklafell staðsettu hermennirnir fallbyssur sem nýttar voru við æfingar. Skotið var upp á Miðdalsheiði og eru til kort frá hernum er sýna æfingasvæðið. Æfingasvæðið var kallað Sandskeið Range. Sandskeið var í þeim hluta Seltjarnarneshrepps hins forna sem var austan og suðaustan Reykjavíkur og kom í hlut Kópavogshrepps við skiptin 1948. Sandskeiðið er á afréttarsvæði Gunnarshólma, Geirlands og Lækjarbotna sem áður tilheyrði Helliskoti (Elliðakoti), Vilborgarkoti og Hólmi. Finnbogi Rútur Valdimarsson fékk því áorkað að Lækjarbotnasvæðið og afréttur varð þinglýst eign Kópavogshrepps 1949. Ekið var að húsum Svifflugfélags Íslands á Sandskeiði. Þar var vel tekið á móti okkur og snæddum við þar nesti okkar. Tveir félagar úr stjórn félagsins fræddu okkur um starfsemina og okkur var boðið að skoða flugflotann á staðnum. Svifflugfélag Íslands var stofnað 20. ágúst 1936. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Agnar Kofoed-Hansen (1915–1982). Agnar starfaði sem flugmaður, flugmálastjóri og lögreglustjóri í Reykjavík. Hinn 5. maí 1938 heimilaði hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps Svifflugfélagi Íslands að jafna flugsvæði og byggja flugskýli á afrétti hreppsins. Fyrir stríð var góð samvinna við þýska svifflugsmenn enda góð aðstaða fyrir svifflugæfingar á Sandskeiði. Árin 1937 og 1938 nutu íslenskir svifflugmenn tilsagnar þýska flugkennarans Reichstein. Árið 1938 var samkomulag gert við Þjóðverja um að hingað kæmi svifflugleiðangur frá Þýskalandi. Kostnaði var skipt á þann veg að Svifflugfélag Íslands greiddi ferðir og uppihald en þýskir meðlimir Aero-Club von Deutschland útveguðu dráttarflugvél og svifflugur. Þýski leiðangurinn kom hingað í júnímánuði og hélt heimleiðis 28. júlí. Um 30 ungir félagar Svifflugsfélags Íslands nutu kennslu og tilsagnar Þjóðverjanna og auk þess bættust átta menn við frá Svifflugfélagi Akureyrar. Við æfingarnar voru einnig notaðar renniflugur sem félagsmenn Svifflugfélags Íslands og Svifflugfélags Akureyrar höfðu smíðað. Foringi Svifflugleiðangursins var Baumann flugtækjafræðingur, aðalkennari Ludwig forstöðumaður eins hinna kunnu svifflugskóla Þýskalands og aðstoðarkennari Springob sem lokið hafði æðsta prófi í svifflugi í Þýskalandi. Bækistöð leiðangursins og sviflugæfinganna var á Sandskeiðinu og höfðust kennarar og nemendur þar við í tjöldum. Félagar Svifflugfélags Íslands höfðu flutt hús sem þeir höfðu keypt af Ljósafossvirkjun og komið því upp á Sandskeiðinu. Húsið var fyrst og fremst notað sem skýli fyrir flugtækin. Baumann foringi leiðangursins taldi öll skilyrði til svifflugs afburða góð á Sandskeiðinu. Starfsemi leiðangursins endaði með almennri flugsýningu, flugdegi, í júlímánuði 1938. Um það bil sex þúsund manns sóttu flugsýninguna á Sandskeiðinu og komu menn á öllum tiltækum farartækju til að sjá þessi herlegheit sem og ríðandi og gangandi. Athöfninni var útvarpað og vakti hún mikla athygli hér á landi sem og í nágrannalöndum.Í erlendum blöðum var þess getið að á meðal farþega á svifflugdeginum á Sandskeiði voru forsætisráðherra landsins, Hermann Jónasson og rektor Menntaskólans í Reykjavík, Pálmi Hannesson. Kvikmynd var gerð af þessum merka atburði í flugsögu Íslands. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs sýndi mikinn áhuga á að fá eintak af þessari merku kvikmynd sem tekin var á því landi Seltjarnarneshrepps hins forna sem nú tilheyrir Kópavogsbæ. Sunnudaginn 21. júlí 2013 Guðlaugur Rúnar Guðmundsson