Síðsumarganga

Fræðsluganga umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs og Sögufélags Kópavogs 5. september 2013 um Snælandsland og vestanverðan Fossvogsdal. Fararstjórar og skipuleggjendur ferðarinnar voru Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs og Þórður St. Guðmundsson, formaður Sögufélagsins. Sögulegar upplýsingar eru frá ritara fræðslugöngunnar, Guðlaugi R. Guðmundssyni sagnfræðingi, sem er að rita bók um Örnefni og kennimerki í landi Kópvogsbæjar. Göngumenn söfnuðust saman við bílastæðin við Fagralund, íþróttasvæði HK í Fossvogsdal klukkan 17:30. Um 60 göngumenn lögðu síðan af stað í vestur og þræddu stíga um dalinn og mýrarsvæðið á mörkum Digranesjarðar og Kópavogsjarðar annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar.

Friðrik Baldursson fræddi göngumenn um gróðurinn á svæðinu og einnig Einar Sæmundsen um landið við Birkihlíð. Þegar því var úthlutað árið 1937 var það nefnt Digranesblettur 7, fimm hektarar að stærð. Pétur Þröstur Sveinsson frá Snælandi lýsti gæsaveiðum á svæðinu er hann var ungur maður í Snælandi. Kristján Guðmundsson sagði frá deilu um hraðbraut um dalinn, sem blessunarlega varð ekki að veruleika, og karp ráðamanna Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um brautina. Hefðu ráðamenn borgarinnar ráðið hefði hraðbrautin verið lögð um dalinn að mestu leyti í landi Kópavogsbæjar. Fossvogsdalur og Fossvogslækur hefðu breyst í hraðbraut. Fyrsti hluti göngunnar var á landsvæði því sem úthlutað var til ræktunar árið 1939 og síðar kallað Snæland. Það var Digranesblettur 6, 13,5 hektarar að stærð. Árið 1943 keyptu þau Sveinn Ólafsson (1900–1993) og Guðný Pétursdóttir (1901–1999) í félagi við Runólf Pétursson, bróður Guðnýjar, tíu hektara af Digranesbletti 6 en átta hektarar voru ræktaðir. Þau fluttu í Snæland í októberbyrjun 1943. Þau Sveinn og Guðný höfðu áður búið í Geitavík í Borgarfirði eystra. Í öðru bindi Sögu Kópavogs segja þau hjónin frá búskapnum á Snælandi og hinum sögulegu kosningum 1947. Dóttir þeirra Elísabet (f. 1929) var þá fjórtán ára og sonurinn Pétur Þröstur (f.1936) sjö ára. Þau Elísabet og Pétur Þröstur voru bæði með okkur í ferðinni og upplýstu okkur um staðhætti þegar þau bjuggu á svæðinu. Þau gengu með okkur að steinum þar sem talið er að Jón Guðmundsson bóndi í Digranesi hafi lagst til hvíldar í hinsta sinn 2. febrúar 1935. Elísabet taldi að hann hefði sofnað við steininn sem er við sandkassa á leiksvæðinu austan við Snæland. Þau systkinin, Elísabet og Pétur Þröstur, hafa bæði skrifað um búskaparhætti í Snælandi. Elísabet segir meðal annars frá hátíðinni, þegar kúnum var hleypt út á vorin, í grein sem ber nafnið „Beljuboðið á Snælandi“ og var birt í Minningarbók Kópavogsbúa sem gefin var út árið 2007. Pétur Þröstur ritaði greinina „Litríkt líf í Kópavogi“ sem birt var í bókinni Sveitin mín – Kópavogur sem Helga Sigurjónsdóttir gaf út árið 2002.  Búskapur lagðist af á Snælandi árið 1973 en þá var landið meðal annars lagt undir svokölluð Viðlagasjóðshús sem komið var þar fyrir í kjölfar gossins í Heimaey. Hinn 16. október 1974 var gerð númerabreyting á Snælandshúsunum, Snæland 1 varð Grenigrund 1, Snæland 2 varð Grenigrund 2A, Snæland 2B varð Grenigrund 2B, Snæland 3 varð Grenigrund 3 og Snæland 4 varð Grenigrund 5. Við Lundarsvæðið og innan Skógræktargirðingar var merkjasteinn Klofasteinn vestri, vestast í Faxakeldu. Hann var merkjasteinn Laugarnesjarðar annars vegar  og Kópavogs- og Digranesjarðar hins vegar. Þaðan var sjónhending í Hanganda við norðanverðan Fossvogsbotn. Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum höfðu merki verið á þennan veg allt frá upphafi 17. aldar. Árið 1930 samdi bæjarstjóri Reykjavíkur Knud Ziemsen og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu um mörk milli Reykjavíkurlands annars vegar og landa þjóðjarðanna Kópavogs og Digraness hins vegar. Með samningunum 15. nóvember 1930 voru merkin sem áður höfðu verið frá Hanganda í Klofastein vestri færð að brúnni yfir Fossvogslæk. Erlendur Zakaríasson, bóndinn í Kópavogi, andaðist árið 1930 og svo virðist sem stjórn Seltjarnarneshrepps hins forna hafi ekki þekkt hin gömlu merki eða ekki sinnt þessu máli. Þar með fékk Reykjavíkurbær þríhyrninginn sem afmarkast af Hanganda, Klofasteini vestri og Fossvogsbrú. Þetta svæði hafði samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum tilheyrt Kópavogsjörðinni í margar aldir. Gengið var inn á 15 hektara landsvæði sem Hermann Jónasson fékk úthlutað 7. júlí 1938, Digranesbletti 8 og nú ber heitið Lundur. Ábúanda var gert skylt að rækta á hverju ári að minnsta kosti 3300 fermetra af landi jarðarinnar. Skráður leigutaki var Hjörtur Sigurðsson og erfðaleigusamningur gerður við hann á árinu 1938. Samt sem áður stóð Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, að baki viðskiptunum með leigutakann Hjört sem ábúanda. Hinn 28. október 1943 gerði menntamálaráðherra kunnugt með bréfi að Hermanni Jónassyni væri leyft að taka upp nafnið Lundur á nýbýli það er hann hafði reist á Digranesbletti 8 í Fossvogi í Gullbringusýslu. Í fasteignamatinu frá árinu 1940 er sagt að það sé nytjað frá kaupstað. Hinn 28. mars 1945 rituðu þeir Geir Gunnlaugsson (1902–1995) í Eskihlíð og Hermann Jónasson fyrrverandi forsætisráðherra undir erfðaleigusamning vegna lands þessa. Merkileg klausa er í þessari erfðaleigu: „Undan framanrituðu nýbýlalandi er tekin við byggingu þess landspilda, um 2.25 ha að stærð, sem liggur báðum megin við Fossvogslæk, norðan og austan í téðu nýbýlislandi og er greinilega afmörkuð með net- og gaddavírsgirðingu – Landspilda þessi hefur verið leigð öðrum [Hermanni Jónassyni] og fylgir því ekki með í byggingu nýbýlalandsins.  Síðar eignaðist Skógrækarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns. Geir Gunnlaugsson og kona hans Hallfríður Kristín Björnsdóttir (1900–1978) fluttu ekki í Lund fyrr en á árinu 1961. Þau töldu sig búa á öruggum stað en fyrsta eignarnámið var gert árið1968. Næsta eignarnám í Lundi var gert tæpum tíu árum síðar. Þá var tekinn landskiki undir bensínstöð sem enn hefur ekki risið. Ný byggð háhýsa reis á vesturhluta Lundareignarinnar rétt fyrir efnahagshrunið árið 2008. Hallfríður Kristín dó á árið 1978 en Geir á árinu 1995. Geir Gunnar sonur þeirra stundaði anda- og svínabúskap á Lundi til sumarsins 2000 en þá lagðist búskapur af þar. Eftirfarandi vísur hefur Friðrika Geirsdóttir (f. 1935) eftir föður sínum:   Heima í Lundi ég aldur minn ól, þar átti ég lóð mína girta Hvergi í heimi skýlla er skjól né skærari sólarbirta. Ég kveð þig Lundur, söknuður er sár, ég syrgi störfin, gleði mína og tár en skoða lífið, allt sem eina heild, örlaganna vef og reynsludeild.   Að lokinni göngu um Digranesblett sex (Snæland), sjö (Birkihlíð) og átta (Lund) var haldið að útikennsluaðstöðunni Asparlundi. Þar settust lúnir göngumenn við eld að fornum sið og fengu grillaðar pylsur og brauð.   Föstudaginn 6. september 2013   Guðlaugur R. Guðmundsson