AÐ BÚA Á KÁRSNESINU UM 1965
Þóra Elfa Björnsson flutti skemmtilega frásögn af fyrstu árum sínum í Kópavogi á haustfundi Sögufélagsins í fyrir ári síðan og birtum við hana hér í þremur hlutum með um það bil 15 daga millibili.
Í raun var Kársnesið eins og lítið þorp að sumu leyti.Göturnar voru rauðamöl og aftur rauðamöl, þegar nýbúið var að bera ofan í varð að draga barnavagninn, annars stóð allt fast. Fremur fáir bílar voru í eigu þeirra sem þarna bjuggu, daglegir aðdrættir voru í höndum húsmæðranna en flestar konur unnu heima. Á einstöku heimili var bíll en karlinn notaði hann til að komast í vinnu en sinnti oft um leið innkaupum til heimilisins í Reykjavík.
Börn voru á hlaupum alls staðar, engar girðingar, lítil ræktun í görðunum, kannski kál- og kartöflugarðar og það var hægt að hlaupa á milli hvar sem var. Börnin voru slyng í að hoppa milli beðanna og það var hreint slys ef þau lentu ofan á plöntunum. Allir voru á sama stigi, t.d. þekktist varla að börn væru í betri fötunum á sunnudögum, þau léku sér í byggingunum og umhverfis þær og það var ekki umhverfi sem bauð upp á puntkjóla eða lakkskó. Í mörgum húsum var rekin einhvers konar framleiðsla eða þjónusta.
Þannig voru hárgreiðslukonur fljótar að innrétta þvottahúsið með tilheyrandi vask og þurrku og hófu rekstur í hálfköruðu húsi, það voru víða bifvélavirkjar að laga bíla og enginn þurfti að vera í vandræðum með bilaðan bil nema ef varahluti vantaði. Prentsmiðja var í Melgerðinu og varð upphafið að Vörumerkingu sem er í Hafnarfirði í dag. Þá var flatkökugerð þeirra Friðriks og Steinu á Þingholtsbrautinni og Steina keyrði oft sjálf út flatkökur í búðirnar. Í dag heitir fyrirtæki þeirra Ömmubakstur en er löngu flutt af Þinghólsbrautinni. Harðfiskur var unninn yst á nesinu og svo var Ora og Dósagerðin. Nú er ég örugglega að gleyma einhverju og biðst þá velvirðingar á því. Eflaust var margt prófað og þróað sem síðar varð að öflugri framleiðslu, ekki vantaði hugmyndirnar og hæfileikana, hér sem annars staðar. Víða var þörf fyrir iðnar hendur og húsmæður og stálpaðir krakkar voru í tímavinnu þegar framleiðsla var í uppgangi og vantaði aðstoð um tíma. Sími var í fáum húsum, það var erfitt að fá línu í göturnar og mikil tregða hjá Landsímanum, hagvöxtur hafði ekki verið fundinn upp. Og hvar hringdi fólkið? Í búðunum því þar var sími. Þannig voru verslanirnar oft miðpunktur og hálfgerðar hverfismiðstöðvar og leyndi sér ekki ef einhver hringdi út af alvarlegu máli að það var á allra vitorði um leið þótt reynt væri að tala undir rós eða fá þann sem var hinum megin á línunni til að skilja það sem verið var að segja. Það gat verið erfitt að panta lækni því allir vildu fá að fylgjast með sjúklingnum og fréttir bárust síðan af líðan hans með miklum hraða. Það var sími á neðri hæðinni þar sem við bjuggum, líklega út af happdrættinu og þar fengum við að hringja eða vorum sótt í síma ef mikið lá við.
Oft komu konur úr næstu húsum til að fá að hringja og ef efnið var ekki alvarlegt var mikið spjallað og skipst á fréttum og leiðbeiningum um dagleg störf þegar símtalinu var lokið. Næsta verslun eða Kársneskjör eða Guðnabúð eins og krakkarnir sögðu. Guðni Þorgeirsson byrjaði í Fossvoginum með litla búð en byggði íbúðar- og verslunarhús við Borgarholtsbraut 71 sem var opnað 1960, allt var nýtt og haganlegt og með nýtískusniði. Í húsinu var ekki aðeins verslun Guðna og íbúð heldur líka mjólkurbúð því það var venjan, sérstök búð fyrir mjólkurvörur sem voru mun fábreyttari en nú þekkist og skyrið vigtað upp úr tunnum og pakkað inn í smjörpappír. Þar afgreiddu konur og þær voru í stéttarfélagi sem hét því langa en auðskiljanlega nafni: Félag afgreiðslustúlkna í mjólkur- og brauðbúðum. Ég man eftir að um tíma var mjólk skömmtuð að morgni en eftir hádegi mátti reyna að fá mjólk í brúsa og myndaðist biðröð þegar leið að opnunartíma en lokað var í matarhléi. Krakkarnir mínir skiptust á að fara í svona biðröð og sögðu ýmsar sögur þegar heim kom, t.d. hafði liðið yfir eina konuna þegar hún kom inn í hlýjuna eftir að hafa staðið úti langan tíma, og tveir kallar, sögðu þau, hefðu rifist svo mikið – enginn vissi út af hverju – að allt í einu ruku báðir í burtu og urðu þar með af aukasopanum. Ekki veit ég af hverju var mjólkurskortur en skýring hlýtur að vera á því. Í búðarrými sem var milli mjólkurbúðarinnar og Kársneskjörs var ýmiskonar rekstur gegnum tíðina, ég man eftir sauma- og efnabúð, snyrtivöruverslun og videoleigu. Svo var auðvitað Vefnaðarvöruverslun Huldu á Kársnesbrautinni, stundum skoðaði maður hjá henni áður en maður fór í bæinn og endaði svo með að kaupa efnið hjá henni í bakaleiðinni.