AÐ EIGNAST ÞAK YFIR HÖFUÐIÐ
Þóra Elfa Björnsson flutti skemmtilega frásögn af fyrstu árum sínum í Kópavogi á haustfundi Sögufélagsins í fyrir ári síðan og birtum við hana hér í þremur hlutum með um það bil 15 daga millibili.
Við hjónin fluttum í Kópavoginn síðla hausts árið 1961 með eitt barn og annað á leiðinni. Okkur bráðvantaði að byggja yfir okkar stækkandi fjölskyldu en þá var ekki með nokkru móti hægt að fá lóðir í Reykjavík þar sem við bjuggum, nema kannski fyrir blokkir. Kópavogur bauð menn velkomna og deildi út lóðum af miklum rausnarskap, helst til ungs barnafólks. Okkur var úthlutað einni slíkri í Skólagerði. Fljótlega var farið í að taka grunninn og það var öllum auðsætt að betra var að búa nálægt byggingarstaðnum. Á meðan við bjuggum í Reykjavík fór maðurinn minn í strætó á milli og hafði verkfærin með sér í poka. Vagninn var hálftíma á leiðinni hvora leið og það er svolítið skrýtið að ferðin tekur sama tíma í dag. Við fengum leigt í risi í húsi í Vallargerðinu, það var bleikt á litinn og á því var skjöldur sem sagði að þar væri Umboðsmaður Happdrættis Háskóla Íslands. Það var eitt af fáum húsum þar sem garðurinn var girtur af.
Húseigandinn og kona hans bjuggu með dætur sínar á hæðinni. Við ætluðum auðvitað að byggja hratt og leigja stutt. En leigutíminn varð þrjú ár og leigusalinn þolinmóður við okkur. Um allan Kópavog voru húsbyggjendur að hamast við að koma upp mótum, steypa, rífa utan af og koma draumahúsinu upp eins hratt og framast var unnt. Allir unnu eins og brjálaðir við byggingarnar, að kaupa vinnu var aðeins gert þegar komið var að sérfræðiþekkingu. Og skiptivinna var algeng. Það var ekki hægt að fá lán í banka á þessum tíma, maður varð að hafa veð og ef það var ekki fyrir hendi varð veskú að gera húsið fokhelt og fara svo á fund bankastjóra og svo var auðvitað Húsnæðisstofnunarlánið sem sækja mátti um á þessu byggingarstigi og allflestir fengu. Margt var erfitt og tafsamt, t.d. voru fáar verslanir opnar á laugardögum og það var þvílík blessun þegar BYKÓ hóf starfsemi sína árið 1962 á Sæbóli og hafði opið á laugardögum, þvílík nýjung og bót fyrir húsbyggjendur. Það var algengt að menn færu í næstu byggingar að fá lánuð borð þegar vantaði nokkur upp á svo hægt væri að ljúka uppslætti og steypa yfirvofandi, borðin voru talin nákvæmlega og talin aftur þegar þeim var skilað.
Svona tosuðust byggingarnar hægt og hægt áfram. Grjótið sem upp kom úr vinnu við grunnana var í stórum bingjum sem stóðu árum saman, flestir út við göturnar, en eftir að þeir voru fjarlægðir sáu sumir eftir grjótinu, fannst að það hefði mátt nota til skrauts. Við fluttum inn í húsið okkar mjög hrátt, gler var þó í gluggum og vatn og skólp voru í lagi, það var grunnmálað, eiginlega í hólf og gólf því gólfin voru máluð og krít á sumum gluggum. Ekki voru til peningar fyrir skápum eða eldhúsinnréttingu svo frumbýlingsblær var yfir búskapnum. En svona var þetta í flestum húsunum og sums staðar var verið að fínpússa, leggja rör, glerja og fleira eftir að fólk var flutt inn og ekki víst að það hafi verið mjög heilsusamlegt.