Dauðinn er lækur, en lífið er strá

KÓPAVOGSLÆKURINN OG SYSTKININ FRÁ HVAMMKOTI 1874

Eftir Hrafn Sveinbjarnarson

Kópavogslækurinn tifar létt um máða steina og vekur að jafnaði litla athygli hjá þeim sem þeysast eftir Hafnarfjarðarveginum yfir lækjarósinn við Kópavoginn. Sigfús Halldórsson sem nýkjörinn heiðursborgari Kópavogs 27. mars 1994 hélt myndlistarsýningu sem snerist einvörðungu um Kópavogslækinn undir nafninu „Lækur tifar“. Lækurinn er vel brúaður og vatnasvið hans án efa breytt verulega frá því sem áður var vegna byggðar og framræslu. Kópavogslækurinn á upptök sín í Breiðholtsmýri og rennur sunnan við Digraneshálsinn eftir Kópavogsdalnum út í Kópavog, um land hinna gömlu lögbýla Breiðholts, Fífuhvamms og Kópavogs og var á kafla landamerki Digraness og Fífuhvamms. Lækurinn hefur einnig verið kallaður Hvammkotslækur. Vitað er til þess að hann hafi verið kallaður Breiðholtslækur, Digraneslækur og Fífuhvammslækur. Bæjarnafninu Fífuhvammi var komið á af Þorláki Guðmundssyni bónda þar með blaðaauglýsingu í desember 1890, fyrir þann tíma hét bærinn Hvammkot. Hvammkotsnafn lækjarins úreltist við þetta. Lækurinn hefur á ofanverðri 20. öld verið uppnefndur Skítalækurinn af bæjarbúum í Kópavogi sökum þess að skolpi var um tíma veitt út í hann og allt fram á síðustu ár hafa orðið óhöpp með mengað affallsvatn út í lækinn, árið 2013 barst t.d. ókennilegur hvítur vökvi úr Breiðholtinu í hann og vakti nokkra athygli. Lífríki lækjarins hefur af þessum aukaafurðum þéttbýlis orðið fyrir nokkrum breytingum.

VÖÐ, BRÝR, STRÖNDUÐ SKONNORTA OG PÍPUHATTAR

Á korti norska landmælingamannsins Ole Ohlsens frá 1802 má greina þrjú vöð á læknum við ósa hans. Ofar í læknum er svonefnt Danskavað, nú er það sunnan við Fífuhvamm 45, hlaut nafn sitt að sögn af áhöfn danskrar skonnortu sem strandaði á Kópavoginum, og komst í land norðanmegin vogsins og fór yfir lækinn á vaðinu á leið sinni til Hafnarfjarðar. Enn ofar er vað sem ekki ber sérstakt nafn svo munað sé, en það markaði landamerki Digraness, Hvammkots og Breiðholts. (6.) Skv. ákvörðun sýslunefndar Gullbringu- og Kjósarsýslu 27. maí 1884 skyldi 300 kr. af 1.000 kr. þjóðvegagjaldi til vegagjörðar „varið til að brúleggja Kópavogslæk“ og var trébrú fyrst byggð yfir lækinn haustið 1884. (1., 10. og 5.) Þótti hún léleg og viðhaldi hennar áfátt. (18., 8. og 9.) Þetta mun hafa verið göngubrú með stöpli í miðju. (22) Sýslunefndin samþykkti 26. maí 1893 að verja fé til þess að laga veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog og einnig að fá vegfróðan mann til þess að skoða og mæla vegstæði á næsta hausti frá Hafnarfirði að Fossvogslæk og skoraði jafnframt á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.

Skýrsla þessa vegfræðings um kostnaðinn við vegargjörðina með uppdrætti yfir vegstæðið var lögð fyrir fund nefndarinnar 21. apríl 1897, var samþykkt að taka lán fyrir framkvæmdinni sem skyldi hefjast þá um vorið við Fossvogslæk suður yfir Kópavogsháls. Sumarið 1898 var framkvæmdin kláruð og vagnvegur kominn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. (1.) Við þessa framkvæmd hefur brúin yfir Kópavogslækinn verið endurnýjuð . (17. og 2.). Jón Þórarinsson skólastjóri Flensborgarskóla sem hafði kvartað mikið yfir brúnni í blaðaumfjöllun var ásamt sýslunefndarfulltrúum Seltjarnarneshrepps og Mosfellshrepps látinn hafa yfirumsjón með vegagerðinni. (1.) Brúin frá 1898 reyndist mjórri en öruggt gæti talist fyrir bifreiðar. Hinn 8. febrúar 1919 varð eitt fyrsta bifreiðarslys sem um getur í Kópavogi, þá lenti bifreið á brúarhandriðinu og féll út í lækinn með fjórum mönnum innanborðs. Þeir voru á leið í jarðarför Jakobínu Jónsdóttur á Bessastöðum en hún var ekkja Gríms Thomsens reglubróður þeirra í Frímúrarareglunni. Meðal farþega var Sveinn Björnsson sem síðar varð forseti Íslands. Í Morgunblaðinu sagði daginn eftir:

„Varð þeim það til lífs, að sjór var fallinn upp í farveginn, svo vatnið tók þeim undir hendur. Var bíllinn yfirtjaldaður og voru þeir því nokkra stund að komast út úr honum og drukku sjó. Meiðsli hlutu þeir furðulega lítil og má þakka það vatninu. Þó mörðust þeir lítilsháttar hér og hvar og voru dasaðir mjög eftir ferðina, sem vonlegt er.“ Nutu þeir aðstoðar manna úr bifreið sem kom á eftir þeim. Sagan segir að pípuhattarnir af þeim hafi flotið út Kópavoginn. (7.) Lög nr. 62 um brúargerðir voru samþykkt á Alþingi árið 1919 og var í þeim m.a. kveðið á um endurbyggingu brúarinnar yfir Kópavogslæk. Brú var því steypt á lækinn rétt fyrir 1920, hún var tveir og hálfur metri á breidd en þótti orðin ófullnægjandi upp úr 1930. (2.)

Um leið og breytingar voru gerðar á Hafnarfjarðarveginum og teknar af honum vondar bugður á árunum 1938-1939 var ný brú reist, og gerð jafn breið veginum, 7 metra, eins og þá hafði þegar verið gert við allar aðrar brýr á Hafnarfjarðarvegi. (4.) Á stríðsárunum brúaði hernámsliðið Kópavogslækinn á öðrum stöðum, m.a. á Hilton Road sem þá hét á íslensku Fífuhvammsvegur en ber nú nafnið Fífuhvammur. Ný brú var lögð yfir Kópavogslækinn á Hafnarfjarðarvegi árið 1976. Og enn var brú lögð í hennar stað árið 1990, í brúaropið var þá byggður þröskuldur eða stífla til þess að útbúa tjörn við lækjarósinn sem kallast Kópavogstjörn. Árið 2006 var lögð göngubrú utan í brúna vestan megin sem hluti göngustígakerfis í Kópavogi og Garðabæ. Ófá umferðarslys hafa orðið á Hafnarfjarðarveginum við brúna yfir Kópavogslækinn, en hún er á þeim slóðum þar sem ætla má að Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ hafi verið drekkt árið 1704 til þess að fullnægja dómi á Kópavogsþingi. Árið 2007 flæddi Kópavogstjörn yfir bakka sína og minnti það á að lækurinn hefur stundum verið viðsjárverður fyrr á tímum og farartálmi í miklum umhleypingum hláku og leysinga.

Á vöðum til kirkju í átta aldir Með konunglegri tilskipun 4. apríl 1794 var Laugarneskirkja lögð niður frá 6. júní það ár og sóknin sameinuð dómkirkjusókninni í Reykjavík. Íbúar Hvammkots (Fífuhvamms) áttu því sókn til Dómkirkjunnar frá þeim tíma þar til í ársbyrjun 1941.Leiðin til Dómkirkjunnar frá Hvammkoti lá um Stútuslakka, þar sem nú er gatan Brattabrekka neðan við Neðri-Víghólinn, þ.e. rétt sunnan við þar sem nú er Digranesvegur, yfir Digraneshálsinn vestan Víghóla og þaðan að Norðlingavaði á Fossvogslæk sem var nokkru ofar en þar sem lækurinn var brúaður 1897 við lagningu Hafnarfjarðarvegarins. Frá Norðlingavaði var haldið upp Öskjuhlíð austan Leynimýrar, þar sem Fossvogskirkja er nú. Um leiðina er fylgt lýsingu Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur frá Fífuhvammi. (20.) Úr Leynimýri hefur líklega verið farin leiðin sem síðar hét Vatnsmýrarvegur/Laufásvegur til Reykjavíkurkaupstaðar og í Dómkirkjuna. Kirkjusókn úr Hvammkoti þýddi langferð yfir tvo óbrúaða læki, brýr komust fyrst á í Kópavogi 1884 og Fossvogi 1897.

SYSTKININ FRÁ HVAMMKOTI 

Á árunum 1863-1874 bjuggu í Hvammkoti í Seltjarnarneshreppi þau Árni Björnsson (4. júní 1819 – 30. júní 1883) og Salvör Kristjánsdóttir (10. janúar 1818 – 27. maí 1876). Búskap sinn hófu þau á móti föður Árna, Birni Pálssyni prófasti að Heiðarbæ í Þingvallasveit 1845 í tvö ár en þá reistu þau sér nýbýli að Fellsenda í sömu sveit 1847 og bjuggu þar í ellefu ár eða þar til þau fluttust að Brautarholti á Kjalarnesi þar sem þau bjuggu í fimm ár. Þaðan fluttust þau að Hvammkoti og bjuggu þar í ellefu ár. Um tíma var Árni hreppstjóri í Þingvallasveit og svo í Seltjarnarneshreppi. Hann gaf út Rímu af Kjartani Ólafssyni eftir Símon Dalaskáld árið 1871. Vorið 1874 brugðu þau búi og fluttust til Reykjavíkur þar sem Árni gerðist lögregluþjónn. Í Reykjavík andaðist Salvör og fluttist Árni þá til Bjarnar sonar síns gullsmiðs fyrst í Reykjavík svo á Ísafirði.

Nokkrum vikum fyrir andlátið var hann kominn til Kristjáns sonar síns í Hnífsdal en þar bjó þá einnig dóttir hans Sigríður Elísabet. (13.) Árni og Salvör eignuðust níu börn. Þrjú dóu ung, systurnar Bergþóra (f. 1849) sem lést tveggja ára og Guðrún (f. 1850) sem lést sex ára, báðar úr barnaveiki. Auk þess drukknaði Steindór, nítján ára mannvænlegur sonur þeirra í fiskiróðri frá Gróttu á Seltjarnarnesi 23. júní 1862.  Árið 1874 urðu börn þeirra fyrir slysi í Kópavogslæknum og eru hér settar saman frásagnir úr fréttablöðunum Tímanum 5. mars og Þjóðólfi og Víkverja 7. mars 1874.(14.,15. og 16.) Um sumt eru þær samhljóða og í Tímanum er hluti textans í  gæsalöppum. Það bendir til þess að byggt sé á sömu skýrslu um málið, en hún hefur ekki fundist. Sunnudaginn 1. mars 1874 fóru 3 ungmenni, börn Árna bónda Björnssonar á Hvammkoti í Seltjarnarneshreppi til kirkju í Reykjavík, meðfram til að fylgja Steinþóru Þorkelsdóttur frænku sinni sem var í fóstri í Hvammkoti og gekk til prestsins. Þessi börn voru Þórunn (f. 27. 9. 1855), Sigríður Elísabet (f. 14. 6. 1857) og Árni (f. 17. 1. 1859). Leysing var áköf um daginn og hafði Kópavogslækur vaxið mikið. Þegar börnin komu að honum á heimleiðinni var mikill straumur í honum, orðið áliðið dags og dimmt. Freistuðust þau til að komast yfir hann á broti sem þeim þótti tiltækilegast og leiddust, pilturinn á undan, yngri stúlkan næst og eldri stúlkan síðust. Þau óðu lækinn í hné og drengurinn sem gekk á undan hafði staf í hendi, en í miðjum læknum missti hann fótanna og datt, því hált var í botninum. Straumurinn reif hann þegar með sér og ætlaði  þá yngri stúlkan að grípa til hans, en missti þá einnig fótanna og að líkindum hin stúlkan eins. Samkvæmt Víkverja raknaði yngri stúlkan við og hafði hana þá rekið upp á lækjarbakkann 80 föðmum neðar en hún hafði lagt út í lækinn, en hún sá ekkert til hinna barnanna.

Henni skolaði á grynningu og gat hún þar fótað sig segir í frásögn Þjóðólfs. Hún fór þegar heim og sagði hvað að hefði borið. Faðirinn brá þá þegar við og tveir næturgestir sem þar voru og fóru til lækjarins, sem þá var orðinn með stíflum og jakaflugi. Eftir nokkra leit fundu þeir eldri stúlkuna við jaka í læknum, æði langt frá þeim stað er þau höfðu ætlað að vaða yfir. Lík drengsins fannst fyrst daginn eftir ennþá neðar, um 300 faðma frá nefndum stað. Allar lífgunartilraunir voru árangurslausar. Sjá má að í þessari frásögn er að nokkru stuðst við vitnisburð Sigríðar Elísabetar. Páll Eyjólfsson gullsmiður var ritstjóri Tímans og var Björn Árnason, sonur Árna í Hvammkoti, í læri hjá honum. Mörgum árum síðar var annar næturgestanna gestkomandi í Fífuhvammi og sagðist hafa borið eldri dótturina örenda ásamt föðurnum frá Danskavaði í Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt.“ sagði hann. (20.) Í umfjöllun Tímans um slysið 5. mars 1874 var spurt „Því er lækur þessi ekki brúaður?“ Og þrátt fyrir þann óhug sem slysið vakti var lækurinn fyrst brúaður tíu árum síðar. Fór Jón Þórarinsson skólastjóri í Flensborgarskóla hörðum orðum um það framtaksleysi árið 1892 þegar hann skrifaði til hvatningar því að Fossvogslækurinn yrði brúaður: „Hreinskilnislega sagt, þá held ég að verið sé að hinkra við eftir því að einhver drukkni í honum, − líkt og í Kópavogslæk. Ekki liðu margir áratugir frá því að 3 [svo! á að vera 2] unglingar drukknuðu í honum, þangað til brúin kom!“ (8.)

A.m.k. þrjú kvæði voru ort um slysið árið 1874 og birt í fréttablöðum. (3., 11. og 21) Eitt þeirra er kvæði Matthíasar Jochumsonar „Börnin frá Hvammkoti“ sem birtist ásamt þakkarorðum Árna Björnssonar til þeirra sem höfðu sýnt hluttekningu vegna atburðarins í Þjóðólfi 30. júní 1874. Matthías var þá nýlega tekinn við ritstjórn Þjóðólfs. Líklegt má telja að kvæðið, sem hefst „Dauðinn er lækur, en lífið er strá; skjálfandi starir það straumfallið á“ sé það kvæði eftir Matthías sem Sigurður Þórarinsson kvað um árið 1938 að lesa megi í „Að lífið sé skjálfandi lítið gras…“. Lofsöngur Matthíasar ortur veturinn 1873-1874 var frumfluttur í Dómkirkjunni í Reykjavík 2. ágúst 1874. Þar er fjallað um „eilífðar smáblóm með titrandi tár“ og að „vér lifum sem blaktandi strá.“Kvæði Matthíasar hefur orðið til þess að festa þennan atburð í minni, en einnig fræg grein eftir Vilmund Jónsson landlækni rituð til minningar um Sigríði Elísabetu Árnadóttur sem var sú systkinanna sem komst lífs úr læknum „Eitt sá tómt helstríð. Sigríður Elísabet Árnadóttir 14 . júní 1857-20. janúar l939.“ Sú grein birtist fyrst í Alþýðublaðinu 27. janúar 1939, á þeim tíma sem Finnbogi Rútur Valdemarsson ritstýrði blaðinu en Finnbogi varð síðar einn helstur áhrifamanna í Kópavogi og heiðursborgari þar. Grein Vilmundar hefur ítrekað verið endurprentuð. (19.) Sögufélag Kópavogs og Kópavogsbær munu í tilefni af því að hinn 1. mars 2014 verða 140 ár liðin frá slysinu vígja minnisvarða um systkinin frá Hvammkoti nálægt slysstaðnum. Er það tilefni þessarar samantektar.

BYGGT ER Á: 1. Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn Gullbringu- og Kjósarsýslu. XXXII. Gjörðabók sýslunefndar 1874-1902. 2. Adolf Petersen. „Hafnarfjarðarvegur“ Vegagerðin. Innanhúss 10. tbl. 2012. Einnig í skjölum Adolfs í Héraðsskjalasafni Kópavogs Afh. 9/2009, E/1, örk 5. Ritað á árunum 1975-1976. 3. Guðmundur Torfason „Börnin frá Hvammkoti 1874“ Víkverji 16. júlí 1874. 4. Geir G. Zoëga. „Framkvæmdir að vegabótum á árinu 1938“ Vísir 31. desember 1938. „Vegir og brýr. Framkvæmdir á þessu ári“ Morgunblaðið 8. október 1938. 5. G. Gíslason „Nokkur orð um vegabætur“ Þjóðólfur 27. apríl 1888. 6. Guðlaugur R. Guðmundsson „Örnefnaskrá Kópavogs“ Saga Kópavogs. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Kópavogi 1990, bls. 243. Einnig munnlegar upplýsingar frá Guðlaugi sem vinnur nú að riti um örnefni í Kópavogi. 7. Jón Þór Hannesson. „Frá minjasafninu. Einkenni og orður br. Gríms Thomsen“ Frímúrarinn. Fréttablað Frímúrarareglunnar á Íslandi. 2. tbl. 2. árgangur 2006. 8. Jón Þórarinsson. „Kópavogsbrúin, Fossvogslækur og Eskihlíðarvegurinn“ Ísafold 30. janúar 1892. 9. Jónas Jónassen „Fossvogslækur og Kópavogsbrú“ Ísafold 20. febrúar 1892. 10. Jónas Jónassen „Vegurinn yfir Kópavogsháls“ Suðri 22. nóvember 1884. 11. Matthías Jochumson. „Börnin frá Hvammkoti“ Þjóðólfur 30. júní 1874. 12. Minningarorð um Árna Björnsson. Þjóðólfur 8. september 1883. 13. Rögnvaldur Ólafsson. „Björn gullsmiður Árnason“ Sunnanfari 11. tbl. 13. árg. 1. nóv. 1914. 14. „Slysfarir.“ Víkverji 7. mars 1874. 15. „Slysfarir.“ Þjóðólfur 7. mars 1874. 16. Slysfregn á forsíðu, dagsett 3. mars. Tíminn 5. mars 1874. 17. „Vagnvegur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur“ Ísafold 26. apríl 1899. 18. Vegfarandi. „Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.“ Ísafold 11. október 1890. 19. Vilmundur Jónsson. „Eitt sá tómt helstríð. Sigríður Elísabet Árnadóttir 14. Júní 1857-20. janúar 1939.“ Alþýðublaðið 27. janúar 1939. Tíminn 10. Mars 1974. Íslenzkar úrvalsgreinar 1. bindi 1976. Með hug og orði 1985. Alþýðublaðið 18. október 1994. 20. Þórhallur Vilmundarson. „Víghóll“ Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994. 21. Æ. „Mæðusöm kirkjuför“ Tíminn 12. júní 1874. 22. Jón Guðnason. Verkmenning Íslendinga V. Vegamál. Reykjavík 1975.  

Hér er ljóð Matthíasar Jochumssonar úr Þjóðólfi 30. Júní 1874. Börnin frá Hvammkoti.

Dauðinn er lækur, en lífið er strá;
skjálfandi starir það straumfallið á.

Hálfhrætt og hálffegið hlustar það til;
dynur undir bakkanum draumfagurt spil.

Varið ykkur blómstrá, á bakkanum föst,
bráðum snýst sá lækur í fossandi röst.

Þrjú stóðu börnin við beljandi sund;
næddi vetrarnótt yfir náklædda grund.

Hlökkuðu hjörtun svo heimkomu-fús,
hinumegin vissu sín foreldrahús.

En lækurinn þrumdi við leysingar fall,
fossaði báran og flaum-iðan svall.

Hýmdu þar börnin við helþrungin ós;
huldu þá sín augu Guðs blásala ljós.

„Langt að baki er kirkjan, er komum við frá,
 en foreldranna faðmur er fyrir handan á.

í Jesú nafni út í, því örskamt er heim“ –
Engill stóð og bandaði systkinum tveim.

Eitt sá tómt helstríð – og hjálpaðist af;
hin sáu Guðs dýrð – og bárust í kaf.

Brostin voru barnanna brá-ljósin skær:
brostu þá frá himninum smástjörnur tvær.

Foreldrarnir týndu upp barna sinna bein;
en báran kvað grátlag við tárugan stein.

Hjörtun kveða grátlag, sem heyra þeirra fár;
Herrann einn má græða vor forlaga sár.

Dauðinn er hafsjór en holdið er strá;
en sál þess er sundlétt og sökkva ei má.

 

Tíminn, 12. júní 1874

MÆÐUSÖM KIRKJUFÖR

Man ég það, mars
mánaðar fyrsta dag næstliðinn, þars
systkini´ er fararlof fengu,
fram í Vík* gengu.

Þau fóru þrjú;
þeirra var áform að styrkjast í trú
í guðshúsi´ og – gæfist þeim kraftur –
ganga heim aftur,

Þeirra hvert hét:
Þórunn og Sigríður Elísabet,
Árni, –fyrir utan Steinþóru** –
Árna börn vóru.

Fögur og blíð,
færri svo munu á núlegri tíð,
siðlætið sómalegt þýddi,
að sérhvað gott prýddi.

Lögðu af stað,
að lokinni messu, – en hvað bar þeim að? –
óveðrið orkuna þreytti;
örðugt allt veitti.

Ofviðrið hvein,
allt eins og hótað‘ að vinna þeim mein,
leysingin lækina fyllti,
um leið beina villti.

Komu loks að
Kópavogslæknum á tilteknum stað
– ó, hefði´ þau framkvæmd þá fengið
upp fyrir hann gengið.

Fárvaldur*** þá
för hinna prúðustu unglinga sá,
fældi með feikn-veðra glaumnum,
en fól sig í straumnum.

„Ófært ég held
yfir að komast, því strangt er og kveld“,
þannig tók Þórunn til orða;
þraut vildi forða.

Aftur gaf svar,
Árni sem brotinu kunnugur var:
„saman ef höldum fat höndum
ég held að við stöndum“.

Þau leiddust þar
þangað sem straumkastið harðasta var,
vongóð, þó væri það lakast
vel mundi‘ allt takast.

Dauðinn það leit
dró sig þeim nærri og jaxlinn á beit;
beitti hann þá brögðunum fljótum
og brá þeim af fótum.

Öll fóru saamt
öll flutu í straumnum og bárust jafnframt,
loks þar til leiðirnar skiptust
lífi tvö sviptust.

Þau sluppu um leið
frá þessa heims freistingum mæðu og neyð;
fóru til fagnaðarlanda,
guðs föður handa.

Eitt eftir var;
því upp á grunn nokkurt Sigríði bar,
sæta þó samfylgd mest kysi,
sig dró frá slysi.

Þung voru spor
– það veit hinn alvísi skapari vor –
fráskilin systkinum svona
og sælunnar vona.

En halda þá heim;
heim, ó, að dauflega bústaðnum þeim,
og færa þar foreldrum – nauða –
fregn, sviplegs dauða.

Orsök til var,
að ungmennið blíðlynda sjálft hefði þar,
hímt undir húsunum lengi
uns heim dapurt fengi.

Heldur en að
hverfa‘ inn í bæinn og tilgreina það
óhapp, sem að borið hafði
og angur mest krafði.

Og vita hvað,
þeim elskuðu foreldrum brygði við það.
– Ströng aðköst angurs og meina
fá ýmsir að reyna. –

En einn gefur þrek,
sem aldrei frá guðhræddu börnunum vék,
stýrir í straumnum kífsins
og stefnir til lífsins.

Frelsari vor,
fullvel sem þekkir vor örðugu spor,
lætur ei lundina‘ óhressta,
né liðsinni bresta.

Háskanum úr
hann leiðir sum þeirra, og reynist þeim múr
huggar þau, gætir og geymir,
meðan ganga‘ um í heimi.

En ungmennum þeim
sem í gegnum straumana‘ hann leiðbeindi heim
sæluna sífelda gefur
sem sjálfur hann hefur.
í apríl 1874. Æ.

* Sama sem Reykjavík. ** Frændstúlka þeirra sem eftir var til spurninga í Reykjavík. *** Sama sem dauðinn. Ekki er vitað hver er á bakvið undirskriftina Æ  

 

Víkverji 16. júlí 1874 † BÖRNIN FRÁ HVAMMKOTI 1874.

1. Margt þrumar tíðum oss við eyra,
sem eykur hroll og vekur grát,
það er óvenja ekki að heyra
ástvina frænda og barnalát,
því svo úr garði gjörð sú er
af Guði jörð sem byggjum vér.

2. Eitt er sem þungt vill flestum falla
foreldrum manns er hafa þel,
og margir standa straum þann varla
er sterkri mundu grípur hel,
mannvænleg dögum æsku á
uppvaxin börn er gleði tjá.

3. Geta má nærri gleði þroti
geyst hve mjög olli harmafregn
hastarlegs missis Hvamms í koti,
hún brjóst foreldra lagði gegn.
Frá heyrn Guðsorða heimleið á,
hlutu tvö systkin verða að ná.

4. Eins og þá blóm á blómsturvöllum
brosandi spretta vors um tíð,
mannvænleg þau og ástkær öllum,
æskunnar tóku þroska fríð,
örlaga þar til elfa ströng,
uns fótum þeirra lesti spöng –

5. Systkinin Þórunn þar og Árni
í þungum starumi misstu fjör,
von er foreldrum sárið sárni
svo gekk þeim nærri banahjör,
blómkransinn hefir bjarta sá
bliknuðum rótum sniðið frá –

6. En hún, sem leyst frá lífsins tjóni,
líf fékk í sömu hættu þáð,
lofar hann sem frá himintróni,
hjálp sendir jafnan styrk og ráð,
hún minnist þess hve mjótt bil var
á milli lífs og dauða þar.

7. Hér ýfði dauði sári sárin
er særði hjónin fyrr á tíð,
sá hlífir ei þó hrynji tárin,
hans er síbitur eggin stríð,
hann vinnur öll sín verk fyrir því
þó vekist blóðund forn og ný. –

8. Ámælum vér síst engli dauða,
alvalds að boði flytur sá
oss lífs að borg af landi nauða,
lifandi hver því prísa má
Lífsvald, er harma léttir kaf,
og lífsins betra von oss gaf. –

9. Æfinnar vér í iðustraumi
ölvaðir hrekjumst til og frá,
vaktir af heimsins værðardraumi
vitum ei glöggt hvað stefnum á;
vér stöndum lífs á veikri spöng,
veit Guð hve sú mun staða löng.

10. Þótt öldur nauða yfir gangi,
og villi sjónir mæðuský,
þótt margir hafi fullt í fangi,
að flækjast hér, má gæta að því,
allir samfögnum eitthvert sinn,
einn lendir fyrr, en síðar hinn.

Guðmundur Torfason (1798-1879) prestur á Torfastöðum.

 

Þorbjörg Daníelsdóttir maí 1997

Það var morgunn, hinn 1. maí,
og mildir geislar vorsólarinnar
struku mjúkir um vanga mína og hár.
Það var friður og kyrrð í dalnum,
eins og enn væru árdagar
hinnar elstu byggðar.

Lækurinn, ljúfur og saklaus
liðaðist hljóðlega fram
og lét sem hann hefði löngu gleymt
að eitt sinn fyrir löngu liðnum vorum
hafð‘ann, ólmur og ólgandi
og fullur á barma
hrifsað til sín líf
tveggja saklausra barna,
saklausra eins og hann sjálfur var núna.
Enda er hann nýr, sífellt nýr,
aðeins farvegurinn er gamall.

Kirkjan stóð stolt og traust
í slakkanum og beindi stefni sínu
upp í heiðbláan himininn.
Hún er líka ný, sífellt ný,
þó grundvöllur hennar sé gamall.

Í huga mínum blönduðust
draumar dags og nætur.
Draumar næturinnar um óttann og dauðann, en draumur dagsins um framtíðina og nýja hluti á síðdegi ævi minnar, og sprottna úr gömlu samhengi.
Ég reyndi að aðlaga óróa hugans að ró dalsins og hægði á göngu minni eftir malbikuðum göngustígnum.
Við söng fuglanna og klið lækjarins
heyrði ég blandast vélarnið bílanna
og veitti athygli flugvél, hátt á lofti.

Ég herti aftur gönguna
og tók að hugsa um það sem ég þurfti að gera í dag, og það sem ég hefði átta að gera í gær, og brátt var kyrrð dalsins að baki.

Þorbjörg Daníelsdóttir