Fréttir

  3.3.2014 17:55:10

Um 150 manns tóku þátt í minningarathöfn

Um 150 manns tóku þátt í minningarathöfn um systkinin frá Hvammkoti sem haldin var við Kópavogslæk um helgina. Tvö systkinanna á unglingsaldri drukknuðu í læknum á leið sinni frá Reykjavík árið 1874. Þriðja systkinið, stúlka, sem var með í för komst af við illan leik. Við athöfnina var afhjúpaður minninarskjöldur um atburðinn. Athöfnin hófst á því að Frímann Ingi Helgason, stjórnarmaður í Sögufélagi Kópavogs, bauð gesti velkomna. Arnhildur Jónsdóttir leikkona las kvæði Matthíasar Jochumssonar Börnin frá Hvammkoti. Sr. Gunnar Sigurjónsson prestur í Digraneskirkju flutti ávarpsorð og fjallaði um atburðinn. Minningarskjöldurinn var svo afhjúpaður af þeim frændsyskinum Árna Sigurðssyni og Þórunni Önnu Sigurðardóttur, en langamma þeirra Sigríður Elísabet Árnadóttir var sú systkinanna frá Hvammkoti sem komst lífs úr læknum.

Lesa meira
  13.9.2013 17:54:52

Síðsumarganga

Fræðsluganga umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs og Sögufélags Kópavogs 5. september 2013 um Snælandsland og vestanverðan Fossvogsdal. Fararstjórar og skipuleggjendur ferðarinnar voru Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs og Þórður St. Guðmundsson, formaður Sögufélagsins. Sögulegar upplýsingar eru frá ritara fræðslugöngunnar, Guðlaugi R. Guðmundssyni sagnfræðingi, sem er að rita bók um Örnefni og kennimerki í landi Kópvogsbæjar. Göngumenn söfnuðust saman við bílastæðin við Fagralund, íþróttasvæði HK í Fossvogsdal klukkan 17:30. Um 60 göngumenn lögðu síðan af stað í vestur og þræddu stíga um dalinn og mýrarsvæðið á mörkum Digranesjarðar og Kópavogsjarðar annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar.

Lesa meira
  23.8.2013 17:54:29

Ferð Sögufélags Kópavogs um Lækjarbotnasvæðið

Ekið var frá Kópavogsskóla í fjallabíl frá Teiti. Um 50 manns tóku þátt í ferðinni. Konur voru í meirihluta og elsti farþeginn var Auður Jónsdóttir, leikkona og leikstjóri sem er að verða 95 ára. Fararstjórar og skipuleggjendur ferðarinnar voru þeir Þórður St. Guðmundson, formaður Sögufélags Kópavogs og Gunnar Marel Hinriksson skjalavörður.Farþegar fengu ljósrit af korti af landi Gunnarshólma, Geirlands og Lækjarbotna sem GRG gerði fyrir Sögu Kópavogs árið 1989 og er því bætt aftan við textann.

Lesa meira
  19.5.2013 17:54:05

Fræðslugangan um miðbæjarsvæðið 8. maí sl.

Gengið var frá Kópavogsskóla að Skólatröð og þaðan Háveg austur að Meltröð. Síðan aftur vestur að Hamraborg og til baka austur Digranesveg að byrjunarstað. Gangan tók um einn og hálfan klukkutíma og leiðsögumenn voru þeir Ólafur Guðmundsson f.v skólastjóri Kópavogsskóla sem uppalinn er í næsta nágrenni skólans og Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur sem þekkir allra manna best til örnefna bæjarins og staðhátta hér áður fyrr. Þátttaka var með ágætum um 40 til 50 manns. Veður var gott, bjart og fallegt vorveður með svala í lofti þegar þegar líða tók á kvöldið. Leiðsögumenn og aðrir staðkunnugir sögðu frá fjölmörgum sem búa eða búið hafa á göngusvæðinu. Gamlar myndir af svæðinu eins og það leit út fyrir áratugum síðan gengu milli manna og eldri Kópavogsbúar rifjuðu upp myndrænt þetta landsvæði sem hefur tekið ótrúlegum breytingum á tiltölulega stuttum tíma. Göngunni lauk með myndagetraun þar sem myndefnið er skrúðganga á sumardaginn fyrsta 1959.

Lesa meira