Kópavogslækurinn tifar létt um máða steina og vekur að jafnaði litla athygli hjá þeim sem þeysast eftir Hafnarfjarðarveginum yfir lækjarósinn við Kópavoginn. Sigfús Halldórsson sem nýkjörinn heiðursborgari Kópavogs 27. mars 1994 hélt myndlistarsýningu sem snerist einvörðungu um Kópavogslækinn undir nafninu „Lækur tifar“. Lækurinn er vel brúaður og vatnasvið hans án efa breytt verulega frá því sem áður var vegna byggðar og framræslu. Kópavogslækurinn á upptök sín í Breiðholtsmýri og rennur sunnan við Digraneshálsinn eftir Kópavogsdalnum út í Kópavog, um land hinna gömlu lögbýla Breiðholts, Fífuhvamms og Kópavogs og var á kafla landamerki Digraness og Fífuhvamms. Lækurinn hefur einnig verið kallaður Hvammkotslækur. Vitað er til þess að hann hafi verið kallaður Breiðholtslækur, Digraneslækur og Fífuhvammslækur.