Um 150 manns tóku þátt í minningarathöfn
Um 150 manns tóku þátt í minningarathöfn um systkinin frá Hvammkoti sem haldin var við Kópavogslæk um helgina. Tvö systkinanna á unglingsaldri drukknuðu í læknum á leið sinni frá Reykjavík árið 1874. Þriðja systkinið, stúlka, sem var með í för komst af við illan leik. Við athöfnina var afhjúpaður minninarskjöldur um atburðinn. Athöfnin hófst á því að Frímann Ingi Helgason, stjórnarmaður í Sögufélagi Kópavogs, bauð gesti velkomna. Arnhildur Jónsdóttir leikkona las kvæði Matthíasar Jochumssonar Börnin frá Hvammkoti. Sr. Gunnar Sigurjónsson prestur í Digraneskirkju flutti ávarpsorð og fjallaði um atburðinn. Minningarskjöldurinn var svo afhjúpaður af þeim frændsyskinum Árna Sigurðssyni og Þórunni Önnu Sigurðardóttur, en langamma þeirra Sigríður Elísabet Árnadóttir var sú systkinanna frá Hvammkoti sem komst lífs úr læknum.